Owen er einn af þeim bestu

Ivan Helguera hjá Real Madrid segir að Michael Owen félagi sinn hjá Real Madrid sé einn af allra bestu framherjum í spænsku deildinni. Owen hefur verið iðnastur framherja Real í markaskorun síðustu misseri, þrátt fyrir að verma yfirleitt varamannabekk liðsins. Hann hefur skorað 9 mörk með liðinu í vetur og hefur verið mun iðnari við kolann en stjörnurnar við hlið hans í framlínunni, Raul og Ronaldo. "Ef Owen væri í annari aðstöðu hjá okkur, myndi hann líklega vera einn af markahæstu mönnum deildarinnar," sagði Helguera. Samuel Eto´o, leikmaður Barcelona, er markahæstur á Spáni og segir Helguera að Owen sé alveg jafn góður framherji og Eto´o. "Michael þarf ekki að vera með neina minnimáttarkennd út í leikmenn eins og Eto´o. Ég held að ef hann léki með Barcelona væri hann búinn að skora alveg jafn mörg mörk," sagði Helguera.