Erlent

Embættismanni rænt í Írak

Skæruliðar í Írak tóku í dag háttsettan egypskan embættismann í gíslingu. Þetta er í fyrsta skipti sem erlendum embættismanni er rænt í Írak.  Egyptanum Momdoh Kotb, sem er einn af aðalerindrekum Egypta í Írak, var í dag rænt fyrir utan Mosku í Bagdad af írökskum skæruliðum. Hann er fyrsti erlendi embættismaðurinn sem rænt er í Írak. Skæruliðarnir segjast hafa rænt honum vegna tilboðs Egypta um að hjálpa til við öryggismál í Írak. Þeir krefjast þess að horfið verði frá þeim áformum; að öðrum kosti verði hann líflátinn. Utanríkisráðherra Egypta, Ahmed Aboul Gheit, hefur lýst því yfir að hvorki hermenn né embættismenn verði sendir til Íraks á meðan Kotb er í haldi mannræningjanna. Ljóst er að aðgerðir skæruliða setja strik í reikninginn fyrir Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, sem fundaði með forsætisráðherra Egypta á fimmtudag og fór þess á leit við hann að Egyptar tækju þátt í aðgerðum Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann hefur nú kvatt Egypta til að láta ekki undan kröfum skæruliða. Eina leiðin til að fást við þá sé að framfylgja réttlætinu, en ekki láta að kröfum þeirra. Flestir þeirra sem rænt hefur verið undanfarið í Írak hafa starfað sem vörubílstjórar en nú bendir ýmislegt til þess að mannræningjar leiti að áhrifameiri einstaklingum til að taka í gíslingu. Auk ránsins á Kotb var yfirmanni byggingarfyrirtækis í Bagdad rænt í morgun þegar hann var á leið til vinnu. Myndin er af Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egypta, á blaðamannafundi í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×