Enski boltinn

Ungstirni Everton í vandræðum eftir að hafa haldið partý í samkomubanni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Moise Kean.
Moise Kean. Getty/ Emmanuele Ciancaglini

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton hefur gefið út yfirlýsingu þar sem félagið fordæmir hegðun ítalska sóknarmannsins Moise Kean sem er á mála hjá félaginu.

Útgöngu- og samkomubann er í gildi á Bretlandi vegna kórónuveirufaraldursins en það stoppaði ekki hinn 20 ára gamla Kean í að halda heljarinnar gleðskap á heimili sínu í Cheshire í vikunni.

Kean fór ekki leynt með partýstandið og birti meðal annars myndbönd úr gleðskapnum á samfélagsmiðlinum Snapchat.

Í yfirlýsingu Everton segir að félagið sé í algjöru áfalli yfir dómgreindarleysi Kean og samkvæmt enskum fjölmiðlum má ætla að hann eigi von á sekt frá félaginu.

Kean er á sinni fyrstu leiktíð hjá Everton eftir að hafa verið keyptur fyrir tæpar 30 milljónir punda frá Juventus síðasta sumar. Hann hefur átt erfitt með að fóta sig í enska boltanum og aðeins gert eitt mark fyrir Everton í vetur.

Hann er ekki eini leikmaðurinn úr ensku úrvalsdeildinni sem hefur átt erfitt með fylgja þarlendum reglum en Jack Grealish og Kyle Walker eru meðal leikmanna sem hafa brotið reglur um samkomu- og útgöngubann og fengið mikið bágt fyrir. Félög deildarinnar hafa lagt mikla áherslu á að sýna gott fordæmi í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×