Fótbolti

Leikið án áhorfenda í Noregi í allt sumar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jóhannes Harðarson þjálfar í norsku úrvalsdeildinni.
Jóhannes Harðarson þjálfar í norsku úrvalsdeildinni. mynd/heimasíða start

Stefnt er að því að hefja keppni í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta þann 23.maí næstkomandi en líklega verða engir áhorfendur leyfðir á leikjum deildarinnar fram á haust.

Norsk yfirvöld hafa tekið ákvörðun um að samkomubann verði í gildi í allt sumar og mega ekki fleiri en 500 manns koma saman. Verður sú ákvörðun næst endurskoðuð 1.september.

Norska knattspyrnusambandið hafði vonast eftir því að geta leyft áhorfendur eftir fyrstu umferðir mótsins en sambandið hefur gefið út að það hafi skilning á þessari ákvörðun yfirvalda.

Þessi ákvörðun hefur víðtæk áhrif á knattspyrnuna í Noregi og með henni varð endanlega ljóst að Norway Cup, eitt stærsta unglingaknattspyrnumót heims, getur ekki farið fram í sumar. Eftir því sem kemur fram í norskum fjölmiðlum má ætla að félagið sem heldur Norway Cup, Bækkelaget, verði af u.þ.b 200 milljónum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×