Manchester United sló Paris Saint Germain út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með 3-1 sigri í síðari leiknum í París sem fór fram 6. mars síðastliðinn.
Parísarliðið hafði unnið fyrri leikinn 2-0 á Old Trafford en þriðja mark United úr VAR-víti á fjórðu mínútu í uppbótatíma kom enska liðinu áfram á fleiri mörkum á útivelli.
Manchester United dróst síðan á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og er fyrri leikurinn á Old Trafford í næstu viku.
Jurgen Klopp can’t believe that PSG lost to Manchester United. pic.twitter.com/FDaDhygnc8
— ESPN FC (@ESPNFC) April 2, 2019
Jürgen Klopp er enn að klóra sig í hausnum yfir þessum tveimur leikjum liðanna og hvernig standi á því að Manchester United er með Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„Ég hef sjaldan séð lið jafnóheppið og lið PSG í þessum leikjum. Ég horfði á báða þessa leiki og hugsaði: Vá, það á ekki að vera möguleiki að tapa þessu. Þeir voru betri í báðum leikjunum,“ sagði Jürgen Klopp við Canal Football Club en ESPN sagði frá eins og sjá má hér fyrir ofan.
Liverpool spilar fyrri leik sinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield á þriðjudaginn eftir viku. Mótherji Liverpool er portúgalska liðið Porto.
Liverpool slapp að flestra mati vel en liðið hefði getað lent á móti Manchester City, Barcelona eða Juventus svo einhver lið sé nefnd.