Erlent

Forsætisráðherrann andmælir því að Danmörk sé sósíalísk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. vísir/getty
Sjaldan eða aldrei hefur Danmörk verið jafn mikið á milli tannanna á Bandaríkjamönnum eins og upp á síðkastið. Eitt forsetaefni Demókrata fyrir komandi kosningar vestanahafs, Bernie Sanders, hefur í ræðu og riti vísað margoft til hins skandinavíska þjóðfélagskipulags sem hann vill reyna að innleiða í Bandaríkjunum.

Sanders segist ekki líta á sig sem Demókrata heldur öllu heldur sem jafnaðarmann, eða sósíalista, og í því samhengi segir hann Danmörk vera fyrirheitna landið.

En í ræðu sinni á föstudag í Harvard's Kennedy School of Government sagði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, að hann gæti ekki fallist á það að Danmörk væri sósalískt land. Hann væri þó stoltur af því að Danmörk hafi borið á góma á jafn stóru sviði og kappræðum forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins.

„Ég veit að einhverjir í Bandaríkjunum tengja Norðurlandamódelið við einhvers konar sósíalisma,“ hefur Vox eftir Rasmussen, „og því vil ég koma einu á hreint. Danmörk er langt frá því að vera einhvers konar miðstýrt áætlanahagkerfi. Danmörk er markaðsríki.“ 

Að mati Rasmussens hverfist Norðurlandamódelið um velferðarkerfið og öryggið sem það tryggir þegnum ríkjanna – „en það er einnig árangursríkt markaðshagkerfi sem gerir fólki kleift að elta drauma sína og lifa lífi sínu eins og það vill.“

Eins og Vox rekur þá er þetta þó ekki í grundavallaratriðum svo frábrugðið boðskapi Sanders. Hann vilji til að mynda hækka skatta og auka útgjöld til velferðarmála.

Rasmussen sagði einnig af þessu tilefni að þegar litið væri á heildarsamhengi hlutanna væru ekkert mjög skiptar skoðanir á þessu kerfi milli stærstu flokkanna í Danmörku. Það hafi til að mynda sýnt sig þegar hann sótti þing Demókrataflokksins fyrir fjórum árum síðan. Þangað mætti hann, leiðtogi hægrisinnaðs flokks, ásamt dönskum kollegum sínum á vinstri vængnum.


Tengdar fréttir

Sanders þokast nær í kjölfar kappræða

Bernie Sanders saxar á forskot Hillary Clinton í baráttunni um að verða forsetaefni Demókrataflokks Bandaríkjanna í kjölfar kappræðna síðustu viku ef marka má nýja könnun CNN.

Frambjóðendum demókrata fækkar vestanhafs

Jim Webb, sem sóst hefur eftir útnefningu demókrata til forsetaframboðs í Bandaríkjunum, dró sig í gær úr kosningabaráttunni. Ástæðuna sagði hann ósætti við flokkinn, sem hann segir hafa gefist upp á Suðurríkjum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×