Lífið

Viðkvæm mál

Sjónvarpsmaðurinn Ásgeir Erlendsson hefur umsjón með heimildaþáttaröðinni Íslenskir ástríðuglæpir sem hefur göngu sína á Stöð 2 sunnudaginn 27. apríl. Þættirnir verða fimm talsins og verða jafn mörg mál til umfjöllunar.

Ásgeir segir það helst einkenna ástríðuglæpi að tilfinningatengsl eru á milli gerenda og þolenda „Í flestum tilfellum spilar tilfinningahiti stórt hlutverk. Oft er það svo að annar aðilinn telur á sér brotið og geta afleiðingarnar orðið ófyrirsjáanlegar. Í sumum málanna er bakgrunnur gerandans ekki hefðbundinn fyrir afbrotamann þar sem um venjulegt fjölskyldufólk er að ræða sem fyrirfram hefði ekki talist líklegt til að fremja glæp,“ segir Ásgeir.

Hann segir mikla áherslu lagða á að nálgast viðfangsefnið af varfærni. „Við höfum tekið okkur góðan tíma í að framleiða þættina og erum að vanda okkur. Þetta eru allt mjög viðkvæm mál og við höfum nálgast þau af virðingu og nærgætni.“

En hvað vakti áhuga þinn á þessum málum? „Þegar ég lagði stund á sálfræði í Háskólanum í Reykjavík las ég mér nokkuð mikið til um ástríðuglæpi í réttarsálfræði. Það sem vakti áhuga minn þá var í raun sú staðreynd að oft er gerandinn ekki með hefðbundinn „prófíl“ afbrotamanns og gæti þess vegna verið ég eða þú.“

Þættirnir Mannshvörf og Óupplýst lögreglumál í umsjón Helgu Arnardóttur vöktu mikla athygli á Stöð 2 í fyrra. Íslenskir ástríðuglæpir verða í svipuðum anda en málin eru þó frábrugðin að því leyti að í öllum þáttunum er um manndrápsmál að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.