Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sent sjúkrahúsum um allan heim leiðbeiningar vegna mögulegrar útbreiðslu nýrrar tegundar kórónaveiru sem kom upp í Kína í desember. Greint var frá fyrsta tilfellinu sem greinist utan Kína í Taílandi í gær.
Einn hefur látið lífið og nokkrir veikst heiftarlega í öndunarfærum af völdum veirunnar í kínversku borginni Wuhan. Smitið var rakið til markaðar með lifandi dýr þar í borg og eru einkennin sögð líkjast lungnabólgu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir nú í fyrsta skipti að „takmarkað“ smit hafi átti sér stað á milli manna en möguleiki sé á frekari útbreiðslu. Stofnunin segist búa sig undir þann möguleika og sjúkrahúsum um allan heim hafi verið sendar leiðbeiningar um sýkingarvarnir.
Kínversk kona hefur verið sett í einangrun í Taílandi en hún er talin sýkt af veirunni. Það er fyrsta tilfelli hennar utan Kína, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Konan kom til Taílands 8. janúar en enginn samferðamanna hennar veiktist. Hún er nú sögð nógu frísk til að halda heim til Wuhan.
Afbrigði sömu veiru olli SARS-faraldrinum svonefnda sem dró um 700 manns til dauða um allan heim frá 2002 til 2003. Faraldurinn átti upptök sín í Kína en smitaði um 8.000 manns í 26 löndum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.