Erlent

Engu munaði að Qantas risaþotan færist

Óli Tynes skrifar
Mótorar Airbus 380 eru á stærð við strætisvagn.
Mótorar Airbus 380 eru á stærð við strætisvagn.

Flugmenn Qantas þotunnar í Singapore fengu yfir sig heila holskeflu af bilunum eftir að sprenging varð í hreyfli hennar fyrr í þessum mánuði.

Airbus 380 risaþotan var í flugtaki frá Singapore þegar svo öflug sprenging var í einum móturnum að mótorhlífin þeyttist af. Stærstur hluti hennar hrapaði til jarðar, en mikið af málmbrotum lentu einnig í væng vélarinnar. Þar gerðu þau göt á eldsneytisgeymana og skáru í sundur fjöldan allan af köplum.

Um leið byrjuðu að kvikna aðvörunarljós í stjórnklefanum. Flugmennirnir þurftu alls að takast á við 54 neyðartilfelli meðan þeir voru að snúa vélinni aftur til lendingar í Singapore. Eitt alvarlegasta tilfellið var að eldsneyti fossaði úr geymunum á vængnum þar sem hreyflilinn sprakk. Það varð því fljótlega mikið ójafnvægi á þyngd vængjanna.

Enn alvarlegra var að vegna rafmagnskaplanna sem fóru í sundur var ekki hægt að dæla eldsneyti úr geymum aftan í vélinni sem varð til þess að hún varð afturþung. Það er eitthvað það hættulegasta sem menn geta lent í.

Þegar vélin kom svo loks inn til lendingar kom í ljós að vængbörðin virkuðu ekki og það þurfti því að lenda á miklu meiri hraða en æskilegt var. Bremsurnar voru negldar í botn og hitinn á þeim fór yfir 900 gráður á celsius. Mörg dekk sprungu við þetta en vélin stöðvaðist þó að lokum. Alveg á brautarendanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×