Skoðun

Opið bréf til stjórnar Grafía

Friðrik I. Friðriksson skrifar
Þessar línur eru skrifaðar sem opið bréf til stjórnar Grafía, stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum. 

Þann 18. maí sl. mætti ég sem vitni fyrir Félagsdómi. Ástæðan var sú að fyrrum samstarfsmaður hafði höfðað mál gegn vinnuveitenda okkar vegna meintrar ólöglegrar uppsagnar. Viðkomandi hafði starfað í 15 mánuði hjá fyrirtækinu og þar af í rúmt ár sem öryggistrúnaðarmaður. Stéttarfélag mitt, Grafía,  sótti málið fyrir hönd starfsmannsins en í lögum um öryggistrúnaðarmenn segir að þeir skuli  - að öðru jöfnu – ganga fyrir um vinnu þegar fækka þarf starfsmönnum eins raun var á í þessu tilviki.

Ég vitnaði fyrir dómnum um starfsreynslu mína og feril – en ég hef verið í prentgeiranum í 42 ár og  liðlega helming þess tíma í framlínu þeirra fyrirtækja sem ég hef starfað fyrir. Lögmanni Grafíu þótti þetta augljóslega lítils virði.  Fyrsta spurning hans var hvort ég væri ekki 65 ára gamall –og ég staðfesti að hann hefði reiknað þetta rétt út frá kennitölu minni. Næsta spurning var hvort ég væri ekki farinn að huga að starfslokum.  Ég var eðlilega ekki viðbúinn þessari spurningu á þessum stað og sama átti við um dómsforsetann sem eðlilega spurði lögmanninn hvað það kæmi málinu við. Lögmaðurinn svaraði því til að starfsreynsla fólks á þessum aldri skipti litlu máli þar sem það færi hvort sem er að hætta störfum og væri því minna virði. Kenningin er óneitanlega sérstök og lögmaðurinn dró síðan spurninguna til baka.

Nú veit ég ekki hvort það er vegna reynsluleysis lögmannsins að hann fer út á þessa braut og persónuleg skoðun hans kemur mér ekki við. Ég vil hins vegar varpa þeirri spurningu til stjórnar stéttarfélags míns hvort það sé stefna Grafíu að þegar fækka þurfi starfsmönnum skuli þeir elstu fara fyrstir? Í þessu tilfelli vildi lögmaður félagsins að minnsta kosti leggja að jöfnu 10 ára starfsaldur minn hjá fyrirtækinu og 15 mánaða starfsaldur samstarfsmannsins af þeirri ástæðu einni að ég sé eldri og e.t.v. farið að styttast í starfslokin. Með öðrum orðum fullnýttur á leið til förgunar. Mér þætti ekki óeðlilegt að lögmaðurinn sem þarna var í umboði Grafíu fengi að minnsta kosti tiltal nema stjórnin sé honum sammála. Sé hún það ekki þætti mér heldur ekki óeðlilegt að ég yrði beðinn afsökunar.




Skoðun

Sjá meira


×