Skoðun

Nýsköpun í skólastarfi

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar
Fræðsluyfirvöld Hafnarfjarðar hafa stigið stórt skref með samþykkt nýs sjálfstæðs grunnskóla í bæjarfélaginu en unglingaskólinn Nú tekur þar til starfa á komandi hausti. Í skólanum verður lögð áhersla á íþróttir og heilsusamlegan lífsstíl og byggja kennsluaðferðir á nýjustu tækni. Þjónustusamningur milli skólans og bæjarins vegna rekstrar hans var samþykktur í kjölfar viðurkenningar menntamálastofnunar á starfsemi hans.

Stofnun þessa nýstárlega skóla er í góðu samræmi við málefnasamning meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar en þar er lögð áhersla á nýsköpun og fjölbreytni á öllum stigum skólastarfs. Að baki ákvörðun fræðsluráðs liggur mikil og ígrunduð vinna en það hefur haft málefni skólans til umfjöllunar í tæp tvö ár.

Með auknu sjálfstæði skóla, hvort sem er innan hefðbundna kerfisins eða þar sem kraftar einkaaðila eru nýttir, felast sóknarfæri í menntun, tækifæri til umbóta og aukins árangurs. Ein leið til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda er að bjóða upp á fjölbreytni og aukið val. Sjálfstætt starfandi skólar eru viðbót við öflugt opinbert skólastarf. Valfrelsi gerir einstaklingum enn frekar mögulegt að vaxa og dafna á eigin forsendum og nýta styrkleika sína sem best. Það veitir kennurum einnig fjölbreyttara starfsumhverfi og er aukið val námsgagna þáttur í því.

Fyrir áhugafólk um menntamál er það einnig umhugsunarvert að á Norðurlöndunum er hlutur sjálfstætt rekinna grunnskóla minnstur hér á landi og töluvert stærri að meðaltali í Evrópu.

Nú þegar stunda á annað hundrað hafnfirsk börn nám í sjálfstætt reknum grunnskólum, innan sveitarfélagsins sem utan, og greiðir bæjarfélagið með hverjum nemanda 75% af landsmeðaltali rekstrarkostnaðar grunnskóla eins og lög gera ráð fyrir. Greiðslur með nemendum í nýja skólanum verða að hluta til viðbót við þá heildarupphæð sem nú þegar er sett í fræðslumálin í bæjarfélaginu. Í þjónustusamningi bæjarins við nýja skólann er sett hámark á skólagjöld, innritunarreglur skýrari en tíðkast í sambærilegum samningum sem og ákvæði um eftirlit og mat á skólastarfinu. Það er ánægjulegt að taka þátt í þeirri nýsköpun og frumkvöðlastarfi sem verið er að ýta úr vör með því að samþykkja nýjan unglingaskóla í Hafnarfirði. Og um leið skapa börnum aukin tækifæri og nýja möguleika til menntunar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×