Skoðun

Gervigreindur aðstoðarkennari - tækifæri án hliðstæðu eða endalok mannkynsins?

Hinrik Jósafat Atlason skrifar

Full ástæða er til að taka alla umræðu um tæknivæðingu menntakerfisins alvarlega enda er sá geiri eftirbátur margra annarra hvað þá þróun varðar, þótt fyrir því séu ágætar ástæður. Miklar framfarir síðustu ára í gervigreind, máltækni og snjalltækjavæðingu hafa búið til tækifæri sem fyrir fáum árum hefðu verið afskrifuð sem draumórar og engum hefði dottið í hug að væru í dag orðnir raunverulegir möguleikar í háskólanámi á Íslandi. En ef við stöndum með nýsköpuninni eru góðar líkur á að við náum að búa menntakerfið okkar vel undir allar þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á samfélaginu okkar á næstu árum, breytingar sem koma til vegna þess mikla fjölda starfa sem úreldast með aukinni tækni- og sjálfvirknivæðingu en líka vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á borð við hnattrænan veirufaraldur.

Talað hefur verið um að menntakerfið sé gamaldags og að mörgu leyti er nokkuð til í því. Ég hef kennt í háskóla undanfarin sjö ár og get sjálfur nefnt nokkur atriði sem mætti bæta, en að gera slíkt getur verið snúið.

Flestir kennarar, rétt eins og aðrir, vilja nýta sér tækniframfarir í meira mæli, sérstaklega þegar þær bæta námsumhverfið og auðvelda nemendum lífið. Hins vegar er stundum erfitt að sjá hvað af þessari nýju tækni skilar raunverulegum árangri og hvað af henni er óþarfa skraut. Gott dæmi um raunverulegar framfarir er t.d. vendikennsla (e. flipped teaching), þ.e.a.s. að gefa nemendum aukið frelsi með uppteknum fyrirlestrum sem þeir geta spilað þegar þeim hentar og nýta kennslustofuna frekar í verkefnavinnu, en þeirri aðferð hafa kennarar úti um allan heim tekið opnum örmum, enda hefur ágæti hennar spurst hratt út.

Kennarar sem vilja nýta sér tæknina vita þó stundum ekki alltaf hvar þeir eiga að byrja. Áskorunin eykst svo vegna þess að nemendur eru margir hverjir aldir upp í tæknivæddari heimi en við forverar þeirra, sem skilgreinum og mótum menntakerfið og þótt vissulega sé rík ástæða til að vanda til verka við innleiðingu nýrrar tækni, er ekki þar með sagt að innleiðingin verði að gerast hægt. Því ef hún dregst á langinn, og nemendur byrja að upplifa námsumhverfið sitt sem gamaldags, myndast ákveðið ójafnvægi sem getur óneitanlega valdið togstreitu á milli kennara og nemenda.

En miðað við núverandi áherslu forsvarsmanna menntakerfisins á tæknivæðingu erum við vissulega á réttri leið. Þar má þó alltaf gera betur, sérstaklega þegar horft er til nýlegra tækniframfara og þeirrar auknu ásóknar í endurmenntun sem fyrirsjáanleg er vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar í samfélaginu öllu. Ef markmið okkar er að vera áfram á meðal fremstu þjóða á næstu áratugum þurfum við að hugsa út fyrir ramma fortíðarinnar og spyrja okkur sjálf: Hvernig gæti háskólanám framtíðarinnar litið út?

Vísindaskáldsagan er gjörn á að vélvæða kennarann og teiknar upp mynd af geldu kerfi þar sem framleiddur er klónaher vinnuafls, gagnrýnis- og sjálfsmyndarlaus. Í slíku kerfi er kennsluefnið staðlað og miðlægt og nemendum ekki kennt heldur eru þeir forritaðir, mældir og svo geymdir á hillu þangað til einhver hefur þörf fyrir þá.

Öllum er vonandi ljóst að á bak við þessa svartsýnismynd er frjótt ímyndunarafl en þó er þetta e.t.v. ekki eins óhugsandi og við viljum vona, eins og verður ljóst þegar horft er til gífurlegra áhrifa alþjóðlegra kennslubókaútgefanda sem eru einmitt að ná góðum árangri í að koma sínu staðlaða og miðlæga efni inn í skólana, oft heilum áföngum og þ.m.t. fyrirlestrum, verkefnum og prófum.

Við ættum vissulega að sporna við þessari þróun og í staðinn auka veg hvers kennara fyrir sig og þannig tryggja að þekking og reynsla hvers kennara verði áfram í fyrirrúmi. Þannig verður samfélagið áfram fjölbreytt, litríkt og áhugavert. En hvernig getur einn kennari spornað við framgangi andlitslausra stórfyrirtækja og úreldingu menntakerfisins? Nú, með tækninni auðvitað, þeim mikla valdajafnara.

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að gera fyrirlestra og kennsluefni stafrænt, a.m.k. í háskóla. Þannig verður neyslan á kennsluefninu óstaðbundin og nemendur fá aukið frelsi til að læra þar sem og þegar þeim hentar. Kennarar geta þá nýtt þann tíma sem þeim er ráðstafað með nemendum í samstarf, rannsóknir og úrlausn verkefna. Þetta er einmitt hugmyndin á bak við vendikennsluaðferðina, sem ég nefndi hér að ofan.

Í dag er lítil fyrirhöfn að taka upp fyrirlestra með ásættanlegum árangri og margir háskólar hafa sérstakt framleiðslusvið sem tryggir samfellu í gæðum. En fyrir upptökur, stafræn stöðupróf og þess háttar þarf lítið annað en áratugagamla tækni, svo hvað getum við gert með nútímalegri tækni?

Með gervigreind getum við gert kennsluefnið einstaklingsmiðaðra, m.a. með því að tína til það efni sem hentar hverjum og einum og á því sniði sem fellur best að þörfum viðkomandi, hvort sem það er myndrænt, hljóð eða texti.

Með máltækni getum við leyft nemendum að eiga í samræðum á töluðu máli við gervigreindan aðstoðarkennara sinn en sá sefur ekki, þreytist seint og fær aldrei nóg af endurteknum spurningum.

Með snjalltækjum í kringum okkur fáum við frelsi frá löngum lotum af aðgerðaleysi í fyrirlestrarsölum eða fyrir framan skjái og nálgumst kennsluefnið frekar í símanum, hátalaranum í stofunni, heyrnartólunum, sjónvarpinu og jafnvel í bílnum okkar.

Með því að hnýta þetta svo allt saman fylgir kennslustofan okkur hvert sem við förum, hvort sem við erum að elda, í ræktinni, í bílnum eða í sólbaði. Máltæknin leyfir okkur að eiga í eðlilegum samskiptum við þessi tæki og kennsluefnið, líka þegar hendur og augu eru upptekin við annað. Gervigreindin aðstoðar svo við að námið verði eins einstaklingsmiðað og áhrifaríkt og það getur orðið, a.m.k. þangað til nemendur hitta kennarann aftur í næsta verkefnatíma.

Fyrir nemendur eru kostirnir ótvíræðir og myndi sá sveigjanleiki sem yrði til í nýja kennsluumhverfinu henta töluvert betur inn í hversdagslegt amstur flestra. Mögulega gæti þessi nálgun líka slegið aðeins á kvíða og námsleiða og fækkað árekstrum við vinnu eða fjölskyldu, sem nemendur í dag þekkja margir hverjir einum of vel.

Fyrir kennara þýðir þetta að enn stærri hluti þeirrar vinnu yrði sjálfvirkur og þeir geti í staðinn nýtt meiri tíma í það sem raunverulega skiptir máli eins og að búa til kennsluefni og tengja það við atvinnulífið og umheiminn, aðstoða við verkefni og sinna þörfum hvers nemanda fyrir sig.

Fyrir samfélagið í heild getur þessi breyting á kennsluumhverfinu þýtt minna kolefnisfótspor vegna færri ferða nemenda í fyrirlestrarsali sem þá þarf að lýsa, kynda, hreinsa og viðhalda. Fólk í fullu eða hlutastarfi nyti góðs af þessum aukna sveigjanleika og eins nytu lesblindir vafalaust góðs af auknum vegi máltækninnar og minni áherslu á lesefni. Fjarnám byggði ekki lengur aðeins á upptökum og yrði fyrir vikið skilvirkara og þá ættu íbúar á landsbyggðinni auðveldara með að sækja námið úr sinni sveit. Vinnumarkaðurinn myndi væntanlega eflast ef tæknin gerði okkur auðveldara fyrir að stunda nám samhliða virkri þátttöku í atvinnulífinu, hvort sem um er að ræða ungt fólk eða það sem er eldra og hugnast að endurmennta sig. Ekki má svo gleyma því aukna bolmagni sem markviss tæknivæðing menntakerfisins býr til og er sérstaklega mikilvægt í dag á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar.

Svona mætti lengi telja og þykir sumum eflaust nóg komið nú þegar. En hvað sem því líður eigum við að nýta þá stöðu sem núna er komin upp til að leggja drög að menntakerfi framtíðarinnar. Byggjum framtíðartekjur þjóðarinnar á samfélagsbætandi nýsköpun og þar er menntatæknin aðeins ein af mörgum greinum sem við getum náð framúrskarandi árangri í.

Höfundur er stofnandi Atlas Primer og stundakennari við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×