Skoðun

Hjálp er alltaf til staðar

Gunnhildur Gunnarsdóttir skrifar
Hvernig bregst þú við þegar þú heyrir orðið „innflytjandi“? Hvort er það jákvætt eða neikvætt? Er það jafnvel hlutlaust? Reyndu nú að setja þig í spor innflytjandans. Þú ert sá sem er algjörlega ókunnugur í þessu landi og þekkir jafnvel engan. Kannski er enginn sem þú getur leitað til þegar þú vilt segja frá þinni reynslu eða þegar þú þarft að leita þér hjálpar. Hvað er þá til ráða?

Sumar erlendar konur sem koma hingað sem flóttamenn eða eru einfaldlega í leit að betra lífi hafa orðið fyrir ofbeldi eða annarri erfiðri reynslu og eiga erfitt með að finna viðeigandi hjálp í þessu ókunnuga landi. Það er ekki auðvelt að segja fólki hvað hefur komið fyrir mann og enn erfiðara þegar maður upplifir skömm eða á við tungumálaerfiðleika að stríða.

Við í Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N. in Iceland) höfum tekið það að okkur að reyna að fræða konur hvaða úrræði eru í boði til þess að leita sér aðstoðar. Eitt af helstu málefnum okkar er barátta gegn kynbundnu ofbeldi. Hlutverk okkar er að taka málstað kvenna sem hafa orðið brotaþolar ofbeldis, fræða þær um rétt þeirra og efna til samvinnu við önnur samtök sem vinna gegn ofbeldi. Einnig leitumst við að tryggja að þolendur séu ekki órétti beittir af þjóðfélaginu, meðal annars í gegnum sameiginlegar ályktanir félagasamtaka sem vinna að þessu málefni. Í samstarfi við Stígamót höfum við nýlega haldið fræðslufund og reynt að sýna að erlendar konur séu velkomnar og geta alltaf leitað aðstoðar Stígamóta.

Samtökin bjóða upp á ókeypis jafningjaráðgjöf þar sem fullum trúnaði er heitið fyrir konur af erlendum uppruna á þriðjudagskvöldum milli 20-22 á skrifstofunni okkar við Túngötu 14, 101 Reykjavík. Ráðgjafar okkar eru erlendar sem og íslenskar konur sem hlotið hafa fjölbreytta þjálfun og vinnu. Auglýst er í hvert skipti hvaða tungumál eru töluð að hverju sinni.

Ég sjálf hef lent í aðstæðum þar sem ég upplifði mig algjörlega hjálparlausa og berskjaldaða vegna vanþekkingar og vankunnáttu minnar, ég vissi ekki hvað ég skyldi til bragðs taka. Ég á góða að sem studdu mig algjörlega, en því miður hafa ekki allar konur af erlendum uppruna jafn mikinn stuðning frá vinum og fjölskyldu og hafa jafnvel ekkert tengslanet. Ég hvet allar þær konur sem upplifa sig einar að koma til okkar eða senda okkur tölvupóst á info@womeniniceland.is. Konur geta treyst okkur fyrir vanmætti sínum, þó svo að það sé það erfiðasta sem þær hafa gert. Þess má einnig geta að ef lesendur vita af eða þekkja til konu sem á erfitt eða er að ganga í gegnum erfiða reynslu, vinsamlegast bendið henni á Samtökin.

Þátttaka mín í Samtökunum mun eflaust hjálpa mér að vinna úr mínum upplifunum en ég vil líka hjálpa öðrum konum sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu svo að þeim geti líka liðið vel hér. Það er gott fyrir þær að vita að einhver hefur gengið í gegnum svipaðar aðstæður. Tryggjum að allar konur af erlendum uppruna fái þann stuðning sem þær eiga skilið!

Þessi grein er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×