Innlent

Segjast vera komin með leyfi fyrir tjaldbúðum

Frá mótmælunum í gær.
Frá mótmælunum í gær. Mynd Sigurjón.
Mótmælendur eru aftur búnir að tjalda á Austurvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Geir Jóni Þórissyni, yfirlögregluþjóni, þá sögðust mótmælendur hafa verið búnir að fá leyfi fyrir tjöldunum þegar lögreglan hafði afskipti af þeim í morgun.

„Við erum bara að kanna það,“ sagði Geir Jón um stöðu mála. Mótmælin eru hluti af Occupy-mótmælum víða um heim.

Þegar Vísir ræddi við Björn Blöndal, aðstoðarmann borgarstjóra í gær, sagði hann að borgarstjórinn hefði gefið mótmælendum það ráð að leita eftir leyfi fyrir tjöldunum, en það er garðyrkjustjóri hjá Reykjavíkurborg, sem veitir slíkt leyfi.

Svo virðist sem mótmælendur hafi nú loksins fengið leyfið, en lögreglan hefur núna fjarlægt tjöldin þeirra daglega í vikunni. Ekki náðist þó í aðstoðarmann borgarstjórans, við vinnslu fréttarinnar.

„Ef í ljós kemur að þeir eru ekki með leyfi, þá verða tjöldin tekin niður,“ svaraði Geir Jón spurður hvernig lögreglan myndi bregðast við, komi í ljós að mótmælendur séu ekki með tilskilin leyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×