Erlent

Áfengis- og tóbaksneysla kostar mun fleiri karla en konur lífið

Karlmenn eru tvöfalt líklegri til að deyja af völdum áfengisneyslu og tóbaksreykinga en konur meðan þeir eru enn á vinnualdri, það er yngri en 65 ára gamlir.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu á vegum Evrópusambandsins en hún byggir á umfangsmikilli rannsókn sem náði til allra landa sambandsins. Samkvæmt skýrslunni látast yfir 600.000 evrópskir karlmenn á hverju ári vegna áfengisneyslu og tóbaksreykinga áður en þeir komast á eftirlaunaaldurinn.

Konurnar sem látast vegna þessa eru hinsvegar 300.000 talsins á hverju ári. Í ljós kom að um 63% evrópskra karlmann höfðu reykt tóbak einhvern tíman á ævinni samanborið við 45% kvennanna. Áætlað hefur verið að eitt af hverju sjö andlátum í Evrópu megi rekja til tóbaksreykinga.

Í 23 af 31 landi í Evrópu látast tvöfalt fleiri karlmenn en konur úr lifrarsjúkdómum sem rekja má til áfengisneyslu.

Það er svo sláandi að rúmlega átta af hverju tíu Evrópubúum sem látast vegna heróínneyslu eru karlmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×