Erlent

Áhöfn ISS í lífshættu vegna geimrusls

Sex manna áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar ISS var í lífshættu um tíma í gærdag og neyddist til að yfirgefa stöðina með engum fyrirvara.

Í ljós kom að óþekkt geimrusl nálgaðist stöðina á miklum hraða. Enginn hafði orðið var við þetta rusl fyrirfram og því var enginn tími til að virkja aflvélar geimstöðvarinnar og víkja henni undan ruslinu. Áhöfnin varð því að örfáum augnablikum að koma sér fyrir í geimfarinu Soyuz sem tengt er við stöðina og kúlpa farið frá henni á meðan á neyðarástandinu stóð.

Samkvæmt frásögn af þessum atburði í erlendum fjölmiðlum skaust geimruslið að lokum framhjá geimstöðinni í tæplega 200 metra fjarlægð og áhöfnin gat síðan komið sér um borð aftur.

Geimrusl sem þetta er vaxandi vandamál á sporbaug gervihnatta á braut um jörðu. Samkvæmt vefsíðu NASA bandarísku geimsvísindastofnunarinnar eru líkurnar á árekstri að vísu enn litlar. Hinsvegar ferðast geimruslið á það miklum hraða að jafnvel smæstu hlutir geta valdið alvarlegum skaða.

Bandaríska geimferðaeftirlitið hefur borið kennsl á eina 16.000 hluti sem eru á sporbaug um jörðu og eru yfir 10 sentimetra í þvermál. Þetta er ruslið eftir stöðugar geimferðir undanfarin 54 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×