Handbolti

Ægir Hrafn tekur slaginn með Víkingum í 1. deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ægir Hrafn skrifar undir í Víkinni í dag.
Ægir Hrafn skrifar undir í Víkinni í dag. Mynd/Víkingur
Víkingur, sem leikur í 1. deild karla í handbolta, hefur fengið gríðarlegan liðsstyrk en varnarmaðurinn sterki, Ægir Hrafn Jónsson, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu Víkings.

Ægir lék með Val í Olís-deildinni í vetur en hann var í Íslandsmeistaraliði Fram fyrir ári. Þetta margreynda varnartröll á að baki farsælan feril hér heima og er einn af albestu varnarmönnum landsins.

„Ég varð strax spenntur fyrir að fara í Víkina eftir að ég heyrði fyrst í Gústa þjálfara. Sú umgjörð og metnaður í starfinu í félaginu finnst mér spennandi og langar að taka þátt í að byggja þetta gamla stórveldi upp" sagði Ægir Hrafn við undirritunina.

Ægir hefur áður elt ÁgústJóhannsson, þjálfara Víkings, í 1. deildina en hann hjálpaði Gróttu að komast upp árið 2011.

„Ég þekki Ægi vel frá því að ég þjálfaði hann á sínum tíma hjá Gróttu.  Ægir er mikil og góð fyrirmynd og um leið mikill leiðtogi sem býr yfir gríðarlegri reynslu sem mun nýtast okkar liði vel á komandi árum" sagði Ágúst Jóhannsson.

Ljóst er að Víkingar ætla sér stóra hluti í 1. deildinni næsta vetur en Ægir er þriðji leikmaðurinn sem liðið fær á þremur dögum. Það er einnig búið að fá heim línumanninn Hjálmar Þór Arnarson og skyttuna Jóhann Reyni Gunnlaugsson sem lék með HK í Olís-deildinni á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×