Íslenska handboltalandsliðið hefur nú lokið fjórum leikjum á HM í handbolta og herbergisfélagarnir eru því búnir að vera í meira en viku saman í herbergi á hótelinu í Metz.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV, komst að því hvaða leikmenn eru saman í herbergi í landsliðinu og kannaði betur hvernig sambúðin gengi.
Þar kom fram að reynsluboltarnir Guðjón Valur Sigurðsson og Björgvin Páll Gústavsson eru saman í herbergi sem og jafnaldrarnir Arnór Atlason og Ásgeir Örn Hallgrímsson. Þessir fjórir hafa verið mikið saman í herbergi í verkefnum landsliðsins síðustu ár.
Stórskytturnar sem fengu mikla ábyrgð á þessu móti, Ólafur Guðmundsson vinstra megin og Rúnar Kárason, eru síðan saman í herbergi. Báðir hafa verið lengi í kringum landsliðið en fengu stórt hlutverk hjá Geir Sveinssyni þjálfara að þessu sinni.
Nýliðarnir Ómar Ingi Magnússon og Arnar Freyr Arnarsson eru saman í herbergi enda þekkjast þeir vel frá unglingalandsliðinum en hinir tveir nýliðarnir eru þó ekki saman í herbergi.
HK-ingarnir Gunnar Steinn Jónsson og Bjarki Már Elísson eru saman og þá er Janus Daði Smárason í herbergi með Guðmundi Hólmari Helgasyni.
Kári Kristjánsson og Bjarki Már Gunnarsson eru einnig saman í herbergi en athyglisverðasta herbergisparið er örugglega markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson og hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarson.
Aron Rafn er 202 sentímetrar á hæð og hávaxnasti leikmaður íslenska liðsins. Arnór Þór er hinsvegar „bara“ 181 sentímetri á hæð og er hann því lágvaxnasti leikmaður liðsins.
Sá stærsti og sá minnsti eru saman í herbergi en það munar 21 sentímetrum á þeim félögum sem láta vel af sambúðinni eins og allir strákarnir. Þorkell Gunnar fékk hvern og einn til að segja aðeins frá herbergisfélaganum. Það má sjá svörin þeirra hér.
Handbolti