Fótbolti

Lloris um að blása tímabilið af á Englandi: „Yrði grimmt gagnvart Liverpool“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hugo Lloris.
Hugo Lloris. Vísir/Getty

Hugo Lloris, fyrirliði Tottenham, segir að það væri grimmt gagnvart Liverpool ef deildin yrði blásin af vegna kórónuveirufaraldursins sem nú ríður yfir heiminn og hefur sett flest allrar íþróttir í heiminum öllum á ís.

Nú greina enskir miðlar frá því að deildin eigi að fara aftur að rúlla þann 12. júní og leikirnir fari fram bakvið luktar dyr. Liverpool er með myndarlegt forskot á toppi deildarinnar en Tottenham er í 8. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir 5. sætinu sem gæti gefið mögulegt Meistaradeildarsæti vegna Evrópubanns Manchester City.

Frakkinn Lloris var í viðtali við L’Equipe þar sem hann sagði að allir væru á sama máli að það ætti að klára deildina og það inni á fótboltavellinum.

„Við erum í stöðu þar sem allir vilja klára deildina og það inni á vellinum. Það væri skelfilegt ef deildin myndi enda eins og hún væri níu leikdögum fyrir lok hennar. Þetta væri einnig grimmt gagnvart Liverpool með þessa forystu sem þeir eru með.. og eru nánast meistarar,“ sagði Lloris.

„Við erum að komast inn á tímabilið þar sem allt verður mjög spennandi og fallagasta hlutann við allt tímabilið. Það vill enginn enda þetta svona.“

Hann sagði að það að leika bak við luktar dyr verði skrýtið, sama hvort að það verði á Englandi eða utan Englands.

„Það verður skrýtið sama hvar það gerist. Fótbolti er ekki íþrótt sem á að vera leikinn bakvið luktar dyr. Án áhorfenda er þetta ekki sami leikur,“ sagði Frakkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×