Erlent

Írska stjórnin fallin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Enda Kenny á kjörstað í dag
Enda Kenny á kjörstað í dag vísir/getty
Enda Kenny, forsætisáðherra Írlands, hefur lýst yfir ósigri í kosningunum sem fram fóru í kvöld. Stjórnmálaskýrendur eru á einu máli; kjósendur eru orðnir langþreyttir á niðurskurði samsteypustjórnarinnar sem Kenny fór fyrir, sem og ójöfnum efnahagsbata.

„Það er greinilegt að ríkisstjórn Fine Gael og verkamannaflokksins mun ekki halda völdum,“ sagði Kenny, sem fer fyrir Fine Gael, í samtali við RTE-sjónvarpsstöðina.

Útgönguspár höfðu frá upphafi sýnt að stjórn Kenny myndi koma illa út úr kosningunum og tapa mörgum þingsætum, þrátt fyrir að vöxtur írska efnahagsins sé sá mesti í Evrópusambandinu. Hagvöxtur í Írlandi er um 7 prósent og atvinnuleysi fer minnkandi.

Kjósendur virðist hafa flykkst að baki óháðum framboðum og þeim sem gagnrýndu niðurskurð sitjandi stjórnvalda hvað harðast. Að sögn AFP er það ekki síst húsnæðisskortur og aukin fátækt sem réði úrslitum í hugum óánægðra kjósenda. 

Kenny segir að þrátt fyrir að fyrstu niðurstöður hafi verið vonbrigði sé ekki ástæða til að kasta inn handklæðinu strax. Úrslitin muni ráðast á lokametrunum. Talið er að kjörsókn hafi verið um 65 prósent. Þó ekki sé búið að telja öll atkvæðin er búist við því að stjórnarmyndun kunni að reynast erfið.

Ef fer sem horfir er talið að tap stjórnar Enda Kenny muni auka þrýstingin á stjórnvöldum í Brussel að endurskoða efnahagsstefnu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×