Skoðun

Leit að hinu mannlega

Alma Ágústsdóttir skrifar
Alma Ágústsdóttir og Kristjana Ingvadóttir, fulltrúar sviðsráðs Hugvísindasviðs SHÍ, settust niður með Vigdísi Finnbogadóttur og ræddu við hana um mikilvægi hugvísinda og viðhorf til þeirra. Þær spjölluðu um hugvísindamenntun Vigdísar og það hvaða áhrif tungumálanámið hafði á hana og starfsferil hennar:

„Menntun mín í tungumálum, bókmenntum og leiklistasögu hefur haft meginþýðingu fyrir lífshlaup mitt, ég hef alltaf fengist við eitthvað sem viðkemur hugvísindum. Ég lagði stund á bókmenntir og tungumál í Frakklandi en þar ákvað ég að stunda nám því Frakkland hefur ætíð verið vagga nýrra hugmynda. Þaðan fór ég til Danmerkur og seinna meir til Svíþjóðar. Á hverjum stað fyrir sig kynntist ég nýjum hugmyndum á sviði hugvísindanna og því víðari sem þekking þín á hugvísindum verður, því færari verður þú um að taka þátt í samræðum á ýmsum sviðum. Hugvísindin eru svo yfirgripsmikil, undir þau falla bókmenntir, saga og heimspeki, svo fátt eitt sé nefnt.

Sjálf er ég mikil endurreisnarmanneskja. Með því á ég við að ég hef grundvallaráhuga á hvoru tveggja hugvísindum og raunvísindum og flétta þær greinar einatt saman. Það er enginn svikinn af því að leggja stund á hugvísindin, þau eru leitin að hinu mannlega og þar sem hugvísindafólk er haldið óseðjandi forvitni, að vilja sífellt vita meira og meira, öðlast það færni í að skilgreina samfélagið og það um hvað lífið snýst, það þarf nefnilega alltaf einhver að gera það.

Í Frakklandi er hugvísindum gert jafn hátt undir höfði og raunvísindum, jafnvel í þeim skólum sem eru hæst skrifaðir. Mér fannst ákaflega gaman að læra í Frakklandi en þar sem Frakkar líta oft á sjálfa sig sem þungamiðju heimsins með frösum eins og “C'était nous” eða “það vorum við” er tungumálakennsla þar ekki sú besta. Á Norðurlöndum og í Þýskalandi, þó ég hafi aldrei gefið mér nægilegan tíma til að læra þar, tel ég að erlendum tungumálum sé gert hæst undir höfði.

Því fordæmi ættum við Íslendingar að fylgja. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það að vera samtalshæfur, eins og t.d. á ensku sem er okkur svo töm, þýðir ekki að maður kunni tungumálið. Að kunna málið er að kunna bakþankana í málinu, að kunna bókmenntirnar og hugsunina á bakvið orðin. Grundvöllurinn í þessu öllu er að við Íslendingar verðum að læra tungumál og við verðum að læra önnur tungumál en einungis ensku því annars getur sýn okkar á veröldina orðið svo þröng. Hér á landi er tungumálanám sérstaklega þarft þar sem við tölum sjálf mál sem er mikilvægt að við varðveitum en enginn skilur á alþjóðavettvangi.

Ég hef verið velgjörðasendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) síðan fyrir síðustu aldamót og eitt það glæsilegasta sem ég veit er að á fundum hjá Sameinuðu þjóðunum eru túlkar fyrir a.m.k. fjögur tungumál á hverjum fundi. Ein stærsta áskorun sem ég hef tekist á við í því starfi var þegar ég hóf fyrst störf þar. Þá var ekki búið að kortleggja öll tungumálin í heiminum og við sátum yfir því í hópi að skoða styrkleika hinna ýmsu Evrópsku tungumála og jafnframt að skilgreina hvað það er sem getur orðið þeim að aldurtila.

Ég hef síðan verið verndari tungumála en það eru um 6700 tungumál í heiminum í dag. Það sorglega er að ef fram fer sem horfir er líklegt að helmingur þeirra verði horfinn um næstu aldamót og ef tungumál glatast hverfur gífurleg þekking með málinu. Við ætlum ekki að leyfa íslenskunni að falla í gleymskunnar dá, við ætlum okkur að varðveita hana. Það þekkir enginn jökla eins og við. Það þarf ekki annað en að líta á orðin sem við höfum yfir sjó, veður og hesta. Öll tákna þessi orð að tungumálið ber með sér svo mikla þekkingu og gerir það að verkum að þeir sem ráða við tungumálið búa yfir gríðarlegum auði. Einhver besta gjöf sem maður getur átt er að kunna tungumál, með því opnast heimar og hugsunin víkkar. Ég hef lengi skammast yfir því að talað sé um „lítil“ og „stór“ tungumál. Tungumál sem ræður við að þýða Shakespeare og Voltaire er ekki lítið tungumál; tungumál eru alltaf stór. Það eru fágætir hæfileikar tungumálsins okkar að geta búið til svo gagnsæ orð.

Íslenskan er svo tær, maður sér í gegnum orðin og hvað þau þýða. En það er líka farið að sletta óþarflega mikið á íslensku. Það, meðal annars, gerir það svo mikilvægt að koma íslenskunni í stafrænt form áður en við byrjum að tala við tækin. Annars missum við tungumálið út í bláinn.

Íslendingar eru virkir í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi hugvísindanna, t.d. er stofnunin sem ber nafn mitt (Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum) hluti af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Reykjavík var fimmta borgin til að hljóta nafnbótina bókmenntaborg UNESCO enda geta Íslendingar státað af ótrúlegum fjölda rithöfunda miðað við höfðatölu. Við sláum þar öll met og höfum gert allt frá miðöldum. Nú eru bókmenntaborgirnar orðnar tuttugu talsins.

Hugvísindin eiga sér svo breiðan vettvang. Þau eru ekki einangruð við að finna upp ný tæki í bíl eða að reikna út burðarþol o.s.frv. Raunvísindin eru dýrðleg og dásamleg og geta t.d. best hjálpað okkur í loftslagsmálunum í dag. Fólk hefur oft meiri trú á dómgreind raunvísindamanna en hugvísindamanna sem rannsaka skapandi hugmyndir og þróun mannsandans. Raunvísindin gætu þó ekki verið án hugvísinda því þau eru ekki síður skapandi út og suður. Þetta getur hvorugt verið án hins. Mér finnst því óafsakalegt að setja hugvísindin í lægsta reikniflokk þegar kemur að fjálframlögum frá ríkinu. Með þessu gera stjórnvöld hugvísindum lægra undir höfði en raunvísindum. Það er alveg ótækt því ef við ættum ekki hugvísindin myndum við ekki vita hver við erum. Þau eru leit að hinu mannlega og í raun öllu í þjóðfélaginu. Hugvísindin skilgreina hver við erum sem manneskjur.“

Greinin er sett saman af Ölmu Ágústsdóttur og byggð á viðtali við Vigdísi Finnbogadóttur. Þessi grein er liður í greinaskriftaátaki sviðsráðs Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.






Tengdar fréttir

„Gangandi orðabækur“

Fyrr á þessu ári dreif ég mig á Framadaga háskólanna, en ég tel mig vera ansi týnda þegar kemur að því að velja mér framtíðarstarf. Þar lærði ég margt um fyrirtæki sem mér hafði áður ekki dottið í hug að væru til. Ég varð þó vör við það að mín menntun var ekki mikils virði í augum flestra fyrirtækjanna.

Framtíð hugvísindanemans

Ég er bókmenntafræðingur og mastersnemi í menningarfræði við Háskóla Íslands. Hvað það þýðir virðist enginn vita og ég viðurkenni að efi samfélagsins um nám mitt hefur oftar en einu sinni borað sig inn að beini hjá mér sjálfri.

Gagn hugvísinda

Breytingar munu eiga sér stað hvort sem við viljum eða ekki en hæfileikar okkar til að skilja og hafa áhrif á þessar breytingar eru misgóðir og alls ekki sjálfsagðir. Við þurfum að mennta okkur til að geta tekist á við breytingar og tekið breytingum.

Upp úr kössunum! Um gildi hugvísinda fyrir heilbrigt mannlíf

Hugvísindi eiga um þessar mundir í vök að verjast. Á Íslandi og víða um heim hafa nýfrjálshyggjukerfin sem innleidd hafa verið í menntakerfum og gera kröfu um fjárhagslega sjálfbærni sérhverrar einstakrar einingar grafið undan þeim.

Gerðu það sem gleður þig

Alma Ágústdóttir, formaður sviðsráðs Hugvísindasviðs SHÍ, settist niður með Elizu Reid og spjallaði við hana um bakgrunn hennar og mikilvægi þess að láta áhugann ráða í námsvali í háskólanum en ekki atvinnumöguleika.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×