Þetta segir Ólafur Guðmundsson, landsliðsmaður í handbolta, í viðtali við Vísi frá Egyptalandi nú þegar rúmur sólarhringur er í að Ísland hefji keppni á HM. Hann segir að áhorfendaleysi á mótinu komi ekki niður á baráttuandanum þó að vissulega sé það synd að hallirnar glæsilegu verði ekki fullar.
Íslenska liðið fundar nú í hádeginu og skerpir enn á áherslum sínum fyrir þriðja leikinn á níu dögum við Portúgal, eftir tvo leiki liðanna í undankeppni EM. Strákarnir okkar halda svo á æfingu í glæsilegri keppnishöll F-riðils, New Capital Sports Hall, þar sem þeir æfðu einnig í gær. Höllin tekur 7.500 manns í sæti en engir áhorfendur verða vegna kórónuveirufaraldursins.
„Þetta er smá eins og í úrslitakeppni. Alltaf að spila við sama lið, farinn að þekkja hreyfingar mótherjanna alveg út og inn,“ segir Ólafur um leikinn mikilvæga við Portúgal, sem gæti ráðið afar miklu um möguleikana á að komast í 8-liða úrslit mótsins.

„Ég á erfitt með að sjá að annað liðið komi með eitthvað nýtt. Þetta snýst svolítið um að gera sömu hlutina en reyna að gera þá betur, lesa í smáatriðin og reyna að leysa þau á stuttum tíma með fundahaldi. Við vinnum þá vinnu mjög vel, eins og ég held að allir viti. Vonandi náum við góðum takti strax, því það er ekki að fara að koma mikið nýtt hvað handboltann snertir,“ segir Ólafur.
Portúgalar hófu þríleikinn á að lemja Alexander Petersson úr leik og kom hann ekki meira við sögu, hvorki í 26-24 tapinu í Portúgal né í 32-23 sigrinum á Ásvöllum.
„Man hvað hinn gæinn gerði“
Ólafur vill þó ekki meina að óhóflega mikil spenna eða pirringur hafi myndast á milli liðanna:
„Ég myndi ekki segja pirringur en þetta verður persónulegra, einhvern veginn. Maður man hvað hinn gæinn gerði í síðasta leik og tekur það aðeins með sér. Í síðasta leik fékk maður það á tilfinninguna að eftir því sem leikurinn fjaraði út þá hefðu þeir kastað inn handklæðinu, vitandi það að það væri leikur fljótlega aftur. Það að við skyldum vinna stórt gefur ekki rétta mynd af liðinu. Þetta eru mjög jöfn lið og það má ekki byggja upp falskt sjálfstraust út af þessu. Þetta er 50:50 leikur og bara spennandi.“
Tilbúnir að dreifa ábyrgðinni
Portúgalar hafa talað um það að þeir geti mögulega keppt um verðlaun á HM, eftir að hafa orðið í 6. sæti á EM fyrir ári síðan. Flestir virðast hins vegar eiga erfitt með að staðsetja íslenska liðið fyrir mót:
„Já, við rennum kannski svolítið blint í sjóinn með það. Það getur verið gott eða slæmt, ég veit það ekki. Portúgalarnir hafa verið á rosalegri uppleið og notið góðs af því að margir þeirra spila saman í Porto og eru því vel samhæfðir, á meðan að við komum meira úr öllum áttum. Svo erum við án Arons [Pálmarssonar] sem hefur alltaf verið stór hluti af okkar liði, en á sama tíma eru margir ungir leikmenn búnir að taka skref upp á við og orðnir þroskaðri. Það verður spennandi að sjá hversu langt þeir eru komnir,“ segir Ólafur. Finnur skyttan sterka fyrir meiri ábyrgðartilfinningu í fjarveru Arons?
„Ég er orðinn eldri og búinn að fara á nokkur stórmót, svo maður finnur alveg fyrir þeirri tilfinningu. Ég held að allt liðið þurfi að dreifa ábyrgðinni og það eru margir leikmenn tilbúnir til að gera það. Þetta er bara krefjandi verkefni og skemmtilegt.“

Ólafur segir aðstæður í Egyptalandi allar hinar bestu og hlakkar til að hefja mótið:
„Þetta er geggjuð höll. Það er synd að það skuli ekki vera áhorfendur hérna því Egyptarnir eru búnir að leggja mikið í þetta og það er mikill áhugi á handbolta hérna, skilst mér. Þetta hefði orðið mjög flott.
Þetta er öðruvísi stórmót eins og allt í heiminum í dag, en þetta snýst enn bara um handbolta. Við erum því miður flestir orðnir vanir því að spila ekki með áhorfendur, en mikilvægi leikjanna er alltaf það sama og undirbúningurinn er voðalega svipaður og vanalega. Við erum bara á hótelinu, á fundum og æfingum. Þannig lagað hefur maður ekki fundið mikla breytingu, en auðvitað sakna allir áhorfendanna.“