Lið Grænhöfðaeyja ferðaðist í gær til Egyptalands en mikil óvissa hefur ríkt um þátttöku liðsins á HM og eru Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu í startholunum, tilbúnir að koma inn sem varaþjóð á mótið.
Það er hins vegar engan bilbug á Grænhöfðaeyjaskeggjum að finna. Samkvæmt handknattleikssambandinu þar í landi greindust þó sex leikmenn, þjálfarinn, einn aðstoðarþjálfaranna, sjúkraþjálfari og starfsmaður sambandsins smitaðir af kórónuveirunni. Sá hópur fór því ekki til Egyptalands í gær.

Eftir að smitin greindust hefur allur hópurinn verið í einangrun í Nazaré í Portúgal, þar sem liðið undirbjó sig fyrir HM.
Fyrsti leikur Grænhöfðaeyja á HM frá upphafi er á morgun gegn Ungverjalandi. Því næst mætir liðið lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu og loks Úrúgvæ í lokaleik riðilsins.