Innlent

63 prósent treysta Bjarna illa fyrir einkavæðingu Íslandsbanka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Tæp 63 prósent þjóðarinnar treysta Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, mjög illa eða frekar illa til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka. 23,5 prósent segjast treysta honum mjög eða frekar vel.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem MMR framkvæmdi fyrir Skiltakarlana. Aðeins ein spurning var lögð fyrir þátttakendur: „Hversu vel eða illa treystir þú Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka?“

Könnunin var gerð dagana 13. til 18. janúar síðastliðinn og var spurningin lögð fyrir handahófskennt úrtak 18 ára og eldri úr hópi svokallaðra Álitsgjafa MMR. Spurningin var lögð fyrir 915 einstaklinga og 860 tóku afstöðu en 55 ekki.

Alls sögðust 46 prósent treysta Bjarna mjög illa, sextán prósent frekar illa en fjórtán prósent bæði og. Tíu prósent sögðust treysta ráðherranum frekar vel og þrettán prósent mjög vel.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar nýtur Bjarni minnst trausts meðal þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði en 76 prósent þeirra sögðust treysta honum mjög eða frekar illa.

Þeir sem teljast til stjórnenda og æðstu embættismanna samkvæmt MMR treysta Bjarna hins vegar mest en 38 prósent þeirra sögðust treysta Bjarna mjög eða frekar vel.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×