Í samtali við Aftonbladet sagði Svensson að Aron hefði ekki verið skoðaður af læknum íslenska liðsins í aðdraganda HM, þvert á það sem HSÍ sagði þegar greint var frá því að Aron gæti ekki leikið á mótinu.
HSÍ sendi svo í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að Aron hefði sannarlega verið skoðaður af læknum landsliðsins og að Svensson hefði beðist afsökunar á ummælum sínum sem hafi verið byggð á misskilningi.
„Þetta er ekkert slúðurblað og verið að búa til fréttir. Það er kannski eitthvað á bak við þetta. Tomas Svensson er virtur í handboltasamfélaginu og hann hefur virkilega haldið þetta. Ef þetta er rétt vill hann kannski meina að Aron hafi ekki nennt á mótið. Hann er kannski að segja það með öðrum orðum,“ sagði Jóhann Gunnar í Sportinu í dag.
„Ég hafði smá áhyggjur því hann var búinn að gefa út að hann væri ekki spenntur að fara á þetta mót. Svo kom Final Four og hann átti frábæran fyrri leik en hann er greinilega eitthvað tæpur í hnénu. Kannski hefur hann bara sagt, ég fer ekki, ég er að drepast í hnénu. Þið getið bara sagst skoða mig svo allir séu rólegir. Þetta er fyrst og fremst ákvörðun hans. En auðvitað er leiðinlegt að Svensson sé að blaðra um okkar innanbúðarmál.“
Mjög grilluð staða
Ásgeir Örn segir að Svensson hafi gerst sekur um trúnaðarbrest með ummælum sínum.
„Ég hugsa að það hafi verið hressilegur krísufundur. Maður las þetta og hugsaði að einhver væri að ljúga, eða ekki segja alveg rétt frá. Maður verður bara að spá eins lítið í þessu og maður getur og trúa því að fólk sé heiðarlegt. Ég ætla að taka þessu þannig,“ sagði Ásgeir Örn.
„Þetta er mjög grilluð staða og óháð því hvaða aðstæður eru uppi að þjálfari í þjálfarateymi okkar segi eitthvað svona, þetta er trúnaðarbrestur.“
Hlusta má á Sportið í dag hér fyrir neðan. Umræðan um ummæli Svenssons hefst á 29:45.

Sportið í dag er hlaðvarpsþáttur um íþróttir sem er aðgengilegur á hlaðvarpsvef Vísis og í útvarpsappi Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Náðu í appið í App Store og Google Play.