Viðskipti innlent

Kampi á Ísafirði í greiðslustöðvun og starfsmanni sagt upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höfuðstöðvar Kampa ehf á Ísafirði.
Höfuðstöðvar Kampa ehf á Ísafirði. Já.is

Rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði fékk í morgun greiðslustöðvun hjá Héraðsdómi Vestfjarða til að komast til botns í fjárhagsvanda fyrirtækisins. Fjármálastjóra fyrirtækisins var sagt upp störfum í desember. Stjórnarformaður Kampa segir stjórnina hafa fengið áfall þegar slæm fjárhagsstaða blasti við í lok árs.

42 starfsmenn, að megninu frá Ísafirði en einnig Bolungarvík, starfa hjá Kampa sem var stofnað árið 2007. Því er ljóst að staðan veldur margri fjölskyldunni á Ísafirði og Bolungarvík áhyggjum.

Jón Guðbjartsson stjónarformaður Kampa segir héraðsdóm hafa fallist á greiðslustöðvun um tíuleytið í morgun. Unnið hafi verið að leyfinu til greiðslustöðvunar síðan stjórn félagsins gerði sér grein fyrir alvarlegum fjárhagsvanda í kringum jólin.

„Við vinnum að því að geta upplýst kröfuhafa og sjálf okkur hvað hefur gerst,“ segir Jón.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var fjármálastjóra fyrirtækisins sagt upp störfum í desember. Jón segir að fyrirtækið hafi ráðið sér lögfræðing sem nú sé með einkaritara og farið verði á kaf í málið.

„Einfalda staðreyndin er að við stjórnarmennirnir urðum fyrir miklu sjokki,“ segir Jón. Á aðalfundi stjórnar í ágúst hafi komið fram að staðan væri mjög góð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×