Viðskipti innlent

Kvika nú eini eigandi Netgíró

Sylvía Hall skrifar
Fyrir átti bankinn tuttugu prósent í Netgíró.
Fyrir átti bankinn tuttugu prósent í Netgíró. Vísir/Vilhelm

Kvika banki hefur gengið frá kaupum á áttatíu prósenta hlut í fyrirtækinu Netgíró og er nú eini eigandi félagsins. Fyrir átti bankinn tuttugu prósent, en viljayfirlýsing um kaupin var undirrituð síðasta sumar.

„Kaup á Netgíró eru í samræmi við stefnu bankans að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu. Netgíró hefur lagt áherslu á þróun á lánshæfismati ásamt því að bjóða raðgreiðslur með einföldum hætti,“ segir í tilkynningu um kaupin.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir mikil tækifæri fólgin í kaupunum, sem geti nýst við að útvíkka þjónustu félagsins.

„Fjármálakerfi landsins er að breytast og samkeppni að aukast. Kvika ætlar að vera fjármálafyrirtæki sem nýtir nýjustu tæknilausnir til þess að þjónusta viðskiptavini. Með kaupum á Netgíró er bankinn vel í stakk búinn til að auka umsvif sín í fjármögnun á vörukaupum.“

Kvika keypti Netgíró af Alva Capital. Skorri Rafn Rafnsson, stjórnarformaður Alva Capital, segir Netgíró styrkjast í sessi við kaupin.

„Um leið eru kaup Kviku á Netgíró staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið hjá fyrirtækinu frá stofnun af því afburða starfsfólki sem þar starfar. Ég óska Netgíró alls velfarnaðar á komandi árum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×