Handbolti

Sjáðu þegar Steinunn blindaðist við þungt högg á auga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir er gríðarlega mikilvæg fyrir Framliðið enda ein allra besti leikmaður Olís deildar kvenna.
Steinunn Björnsdóttir er gríðarlega mikilvæg fyrir Framliðið enda ein allra besti leikmaður Olís deildar kvenna. Vísir/Bára

Landsliðskonan Steinunn Björnsdóttir fór strax upp á sjúkrahús eftir að hafa fengið þungt högg í upphafi leiks Fram um helgina. Hér má sjá atvikið.

Kvennalið Fram verður án fyrirliða síns Steinunnar Björnsdóttur á næstunni eftir að hún meiddist á höfði í leik Fram og FH í Olís deild kvenna um helgina.

Steinunn Björnsdóttir náði bara að spila nokkrar mínútur í leik Fram um helgina því hún fékk þungt högg á augað þegar skothönd FH-ingsins lenti á höfði hennar.

Steinunn lá lengi í gólfinu og þurfti síðan aðstoð við að komast á varamannabekkinn. Hún fór síðan beint á sjúkrahús.

Í viðtali við vefsíðuna handbolti.is þá segir Steinunn frá því að hún hafi blindasr við höggið og að hún hafi ekki enn endurheimt nema brot af sjóninni á auganu sem er mjög illa útlítandi.

„Þetta er frekar alvarlegt. Ég fékk skothendi í augað og sá ekkert með því í gær en er betri í dag. Núna er eins og ég sé að horfa í gegnum plastfilmu. Mér líður best með að hafa augað lokað,“ sagði Steinunn við handbolta.is ennfremur en hún hitti augnlækni í gær og á annan tíma hjá honum í dag.

Steinunn Björnsdóttir er einn allra besti leikmaður deildarinnar og lykilmaður í bæði vörn og sókn hjá Framliðinu. Liðið kláraði leikinn án hennar en þarf á henni að halda gegn sterkari mótherjum en FH.

Steinunn vonast til að hafa sloppið við heilahristing en hún segir þessi meiðsli hafa verið hrein óheppni.

„Ég er bjartsýn á að fá sjónina til baka en ég þarf að taka því mjög rólega næstu daga,“ sagði Steinunn sem staðfestir að hún verði ekki með Framliðinu í næstu leikjum.

Fjallað verður um umferð helgarinnar í Olís deild kvenna í Seinni bylgjunni í dag en þátturinn hefst klukkan 17.00 á Stöð 2 Sport. Þar munu Svava Kristín Grétarsdóttir og sérfræðingar hennar örugglega fara yfir hvað þessi meiðsli þýða fyrir Framliðið.

Hér fyrir neðan má sjá þegar Steinunn fær þetta högg í leik Fram og FH á laugardaginn en þar má einnig sjá þegar hún þreifar sig áfram á varamannabekkinn.

Klippa: Steinunn Björnsdóttir meiðist

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×