Enski boltinn

Mourinho heldur áfram að gagnrýna Klopp: „Þegar ég hegðaði mér ekki vel var mér refsað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho segir að Jürgen Klopp komist upp með ýmislegt á hliðarlínunni sem hann komist ekki upp með.
José Mourinho segir að Jürgen Klopp komist upp með ýmislegt á hliðarlínunni sem hann komist ekki upp með. getty/Peter Powell

José Mourinho segist ekki fá sömu meðferð og kollegar sínir, meðal annars Jürgen Klopp.

Tottenham tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Eftir leik liðanna í síðasta mánuði, sem Liverpool vann á dramatískan hátt, gagnrýndi Mourinho Klopp fyrir hegðun hans á hliðarlínunni og sagði að hann sjálfur myndi ekki komast upp með neitt slíkt.

Mourinho hélt áfram að tala um þetta á blaðamannafundi í gær og sagðist ekki njóta sannmælis. 

„Þegar ég hegðaði mér ekki vel var mér refsað. Ég þurfti meðal annars að horfa á leiki í sjónvarpinu í búningsklefanum og fékk háar sektir. Það sama á ekki við suma aðra,“ sagði Portúgalinn og bætti við að hann hefði róast mikið með árunum.

„Því rólegri sem ég er, því betur les ég leikinn. Mér fannst ég þurfa að breyta hegðun minni en ég get ekki talað fyrir aðra,“ sagði Mourinho sem fagnaði 58 ára afmæli sínu í fyrradag.

Með sigri á Liverpool kemst Tottenham upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×