Um­fjöllun og við­töl: Grótta - ÍR 29-21 | Fyrsti sigur Gróttu kom gegn ÍR sem er enn án sigurs

Andri Már Eggertsson skrifar
Grótta vann sinn fyrsta leik á leiktíðinni í kvöld.
Grótta vann sinn fyrsta leik á leiktíðinni í kvöld. Vísir/Vilhelm

Fyrir leik kvöldsins höfðu hvorki Grótta né ÍR unnið leik í Olís-deild karla í handbolta á leiktíðinni. Grótta landaði þægilegum átta marka sigri, lokatölur 29-21 heimamönnum í vil.

Grótta tók frumkvæði leiksins strax í upphafi leiks og komst fljótlega þremur mörkum yfir. Fyrstu mörk Gróttu komu bæði af vítalínunni þar sem Andri Þór Helgason skoraði en Andri endaði með 7 mörk í öllum leiknum sem hann gerði öll úr vítum.

Vandræði ÍR voru mikil sóknarlega og áttu þeir í miklum vandræðum með að koma boltanum framhjá Stefáni Huldar sem var frábær í marki Gróttu. ÍR skoraði aðeins þrjú mörk fyrsta korter leiks og þá tók Kristinn Björgúlfsson sitt fyrsta leikhlé og náði upp smá sveiflu hjá sínu liði sem skoraði tvö mörk á skömmum tíma.

Staðan var 16 - 8 í hálfleik og var Grótta að spila mjög góðan leik bæði varnarlega og sóknarlega og var brekkan orðinn ansi brött fyrir gestina í hálfleik.

ÍR byrjaði þó betur seinni hálfleikinn en þeir gerðu í þeim fyrr þar sem þeir skoruðu tvö mörk í röð strax í byrjun en það dugði skammt og var orðið erfitt fyrir gestina að vera alltaf að elta Gróttu.

Eyþór Vestman fékk að líta rauða spjaldið um miðjan seinni hálfleik þar sem Daníel Griffin fór framhjá honum en hann ætlaði að reyna bjarga sér fyrir horn en endaði á að fara heldur groddalega í andlitið á Daníel.

ÍR klóraði aðeins í bakkan í seinni hálfleik en alltaf þegar þeir gátu komið sér alminnilega inn í leikinn þá varði Stefán Huldar frá þeim og var niðurstaða leiksins átta marka tap 29 - 21.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Af hverju vann Grótta?

Grótta spilaði frábæra vörn sem ÍR átti í miklum vandræðum að leysa sérstaklega í upphafi leiks þegar þeir höfðu aðeins skorað þrjú mörk eftir korter.

Sóknarleikur Gróttu var góður framan af leik þeir gerðu vel í að koma sér í góð skot færi og voru þeir að spila mikið upp á liðsfélagann sem sást í markaskorun liðsins sem dreifðist á níu leikmenn.

Hverjir stóðu upp úr?

Stefán Huldar Stefánsson fór á kostum í marki Gróttu hann varði nánast allt sem á ramman kom, hann var að verja bæði hefbundin skot en ekki síst dauðafæri sem gerði ÍR ingana mjög pirraða og eftir fyrsta korter leiksins var Stefán með 70% markvörslu.

Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik í kvöld hann var bæði að skora og opna færi fyrir liðsfélagana sína og endaði hann með fimm mörk.

Markvarsla Gróttu var frábær í kvöld.Vísir/Vilhelm

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍR var afleiddur í kvöld. Skotin þeirra voru oft úr ómögulegum vínklum eða beint á Stefán Huldar sem þurfti oft að hafa lítið fyrir því að verja.

Varnarleikur ÍR var ekki góður þá sérstaklega í fyrri hálfleik og fengu Grótta oft mjög opin skot sem þeir nýttu sér.

Hvað gerist næst?

Heil umferð fer fram næsta miðvikudag. Grótta heldur til Vestmannaeyja og mætir ÍBV á meðan fær Stjörnuna í heimsókn í Austurbergið.

Stefán Huldar Stefánsson: Þetta var frábær sigur

Stefán Huldar markmaður Gróttu var maður leiksins í kvöld þar sem hann varði 22 bolta og skilaði fyrsta sigri Gróttu á tímabilinu í hús.

„Tilfinningin er frábær að vinna loksins leik og er ég mjög ánægður með það, ég var mjög ánægður með strákana í dag sem skilaði sér í hagstæðum úrslitum,” sagði Stefán Huldar alsæll eftir leik.

Stefán Huldar sem og allt lið Gróttu voru ekki á deginum sínum í síðustu umferð þegar þeir mættu FH ingum í Kaplakrika en það var annað upp á teningunum í kvöld og var Stefán staðráðinn að spila vel í þessum leik.

Stefán Huldar hafði engar áhyggjur af liðsfélaga sínum Andra Þór Helgasyni sem skoraði bara úr vítaskotum í kvöld en klikkaði tvisvar í opnum leik.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira