Fótbolti

For­seta­fram­bjóðandi Bar­ca skýtur föstum skotum á PSG

Anton Ingi Leifsson skrifar
Joan Laporta er líklegur til þess að verða forseti Barcelona á nýjan leik.
Joan Laporta er líklegur til þess að verða forseti Barcelona á nýjan leik. Albert Llop/Getty

Joan Laporta, forsetaframbjóðandi Barcelona, er allt annað en sáttur við ummæli PSG um Lionel Messi. Franski risinn hefur ekki farið leynt með það að félagið vilji klófesta hinn 33 ára Argentínumann sem hefur ekki farið leynt með óánægju sína í Katalóníu.

Mikið fjaðrafok var í kringum Messi í sumar. Hann vildi burt en að endingu varð hann áfram hjá félaginu. Laport var forseti Börsunga frá 2003 til 2010 en þegar kosið verður um nýjan forseta Barcelona í næsta mánuði vill hann aftur í stólinn.

Leonard, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG, sagði meðal annars að leikmann eins og Messi væru alltaf á lista PSG. Þau ummæli sættir Laporta sig ekki við.

„Mér finnst þetta óviðeigandi. Þetta sýnir að þeir eru ekki með nægilega reynslu á þessu stigi. Þeir eiga enn eftir að læra fullt í heimi fótboltans,“ sagði Laporta í samtali við L’Equipe.

„Ég veit ekki hvort að þessi viðbrögð séu villa í samskiptum eða hvað. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá hef ég alltaf borið virðingu fyrir öðrum félögum.“

„Ég veit ekki hvort að þeir geti fengið hann. Jú kannski ef þeir halda áfram að brjota FFP reglurnar. Það sem ég heyri þá töpuðu þeir miklu á síðasta ári. Ég er forvitinn hvort að þeir muni hunsa FFP reglurnar til að fá hann.“

„Ef það gerist þá vona ég að UEFA og FIFA bregðist fljótt við og Alþjóðadómstóllinn muni ekki halda aftur af sér þegar kemur að því að dæma í málinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×