Erlent

Segir skilið við Venstre

Atli Ísleifsson skrifar
Inger Støjberg var formaður innflytjendamála í Danmörku á árunum 2015 til 2019.
Inger Støjberg var formaður innflytjendamála í Danmörku á árunum 2015 til 2019. EPA/OLIVIER HOSLET

Inger Støjberg, þingkona Venstre í Danmörku og fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, hefur skráð sig úr flokknum. Hún heldur áfram á þingi sem óháður þingmaður.

Støjberg segir í samtali við Skive Folkeblad að ákvörðunin hafi verið mjög erfið en að þetta sé það eina í stöðunni. Besta leiðin fyrir hana til að berjast fyrir þeim gildum sem hún stendur fyrir sé að halda áfram sem óháður þingmaður.

Ákörðunin kemur í kjölfar þess að meirihluti þingmanna danska þingsins samþykkti tillögu um að Støjberg skuli stefnt fyrir Ríksrétt. Stór hluti þingflokks Venstre greiddi atkvæði með tillögunni, formaðurinn þar með talinn.

Rannsóknarnefnd þingsins tilkynnti í síðasta mánuði að Støjberg hafi í ráðherratíð sinni, árið 2016, gefið út ólögleg tilmæli um að láta aðskilja gifta hælisleitendur sem væru yngri en átján ára við komuna til Danmerkur. Náði ákvörðunin til 23 para.

Atkvæði voru greidd fyrr í vikunni um það hvort Støjberg skildi ákærð fyrir Ríkisrétt, sem svipar til Landsdóms hér á landi, og var það samþykkt með atkvæðum 139 þingmanna en þrjátíu þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Í viðtali við Skive Folkeblad segir Støjberg að hún hafi ekki náð tengslum við nýjan formann flokksins, Jakob Elleman-Jensen, sem tók við formennsku af Lars Løkke Rasmussen á þarsíðasta ári. Støjberg sagði af sér varaformennsku í flokknum í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×