Körfubolti

Stjörnumaður valinn í sænska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Lindqvist í leik með Stjörnunni í Domino´s deildinni í vetur.
Alexander Lindqvist í leik með Stjörnunni í Domino´s deildinni í vetur. Vísir/Vilhelm

Stjörnumaðurinn Alexander Lindqvist er í fimmtán manna landsliðshópi Svía og er því á leiðinni í búbblu í Istanbul á sama tíma og íslenska landsliðið kemur saman seinna í þessum mánuði.

Leikmenn sænska landliðsins eru að spila með félögum víða um Evrópu en flestir þeirra spila á Spáni eða fimm leikmenn. Í hópnum eru líka leikmenn sem spila í Svíþjóð, í Frakklandi, á Ítalíu, í Belgíu, í Eistlandi og svo auðvitað á Íslandi.

Gamli NBA-leikmaðurinn Jonas Jerebko, sem er án félags, kemur nú aftur inn í sænska landsliðið fyrir þessa síðustu leiki liðsins í undankeppni Eurobasket 2022.

Alexander Lindqvist er á sínu fyrsta tímabili í Garðabænum en hann er með 16,1 stig og 6,1 fráköst að meðaltali á 27,6 mínútum í Domino´s deildinni.

Lindqvist átti sinn besta leik á móti Njarðvík þegar hann setti niður fimm þriggja stiga körfur og skoraði alls 25 stig.

Svíar eru í baráttunni um eitt af þremur efstu sætunum í riðlinum en þau skila öll sæti í úrslitakeppni EM á næsta ári.

Króatar hafa þegar tryggt sér sæti á Eurobasket en Svíþjóð, Holland og Tyrkland berjast um hin tvö lausu sætin. Svíar hafa unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum eins og Tyrkir en Hollendingar eru með tvo sigra og tvö töp.

Búbblan fer fram á á heimavelli Tyrkja í Istanbul. Svíar mæta þar fyrst heimamönnum í tyrkneska landsliðinu og svo Hollendingum í seinni leiknum. Svíar unnu fyrri leikinn á móti Tyrkjum og þá var Alexander Lindqvist með ellefu stig og fjögur fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×