Málið hefur gefið sögusögnum um að forsetinn sé að búa þannig um hnútana að sonurinn muni taka við forsetaembættinu í landinu þegar fram líða stundir byr undir báða vængi.
Greint var frá skipun Serdar Berdimuhamedov í embætti aðsoðarforsætisráðherra í morgun. Sagði forsetinn að sonurinn myndi í embætti sínu vera með málefni nýsköpunar á sinni könnu.
Hinn 39 ára Serdar hefur áður gegnt þingmennsku í landinu og embætti ríkisstjóra í Ahal.
Gurbanguly Berdimuhamedov tók við embætti forseta Túrkmenistans árið 2006. Forsetinn ræður yfir ríkisstjórn landsins og mun Serdar því þjóna forsetanum beint. Ekki er forsætisráðherra í landinu.
Túrkmenistan er mjög ríkt af olíuauðlindum en íbúar landsins eru um sex milljónir.