Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag sagði Vilhjálmur að það kæmi honum ekki á óvart ef málið reyndist tengjast aukinni hörku í undirheimunum hér á landi og segir að stjórnvöld hafi mátt vita í hvað stefndi út frá skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
Vilhjálmur sagði að Alþingi hafi blásið upp andstöðu við tillögum lögreglunnar á borð við forvirkar rannsóknarheimildir og aðgang að skotvopnum. Hlusta þurfi betur á greiningardeild ríkislögreglustjóra og á vilja lögreglunnar.
Vilhjálmur vill þó halda því til haga að enginn fari fram á að lögreglan beri skotvopn á sér dags daglega, heldur að hún hafi aðgang að skotvopnum ef þörf krefji. Þörf sé á öflugri og vel þjálfaðri sérsveit sem sé til taks sem víðast á landinu.
„Svo þarf líka að þjálfa hinn almenna lögreglumann til þess að geta vopnast ef þörf er á, þannig að hann hafi þjálfun og búnað til þess og aðgang að skotvopnum þó hann beri þau [skotvopn] ekki á sér dags daglega.“
Viðtalið við Vilhjálm má heyra í heild sinni hér að neðan.