Enski boltinn

Houllier hitti Þórð og vildi fá hann til Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórður Guðjónsson lék 58 landsleiki og skoraði þrettán mörk.
Þórður Guðjónsson lék 58 landsleiki og skoraði þrettán mörk. getty/Tony Marshall

Gérard Houllier vildi fá Þórð Guðjónsson til Liverpool í kringum aldamótin. Í staðinn fór hann til Las Palmas á Spáni.

Þórður fór yfir feril sinn í hlaðvarpinu Draumaliðið. Þar ræddi hann meðal annars um þegar Houllier heitinn hafði áhuga á að fá hann til Liverpool um aldamótin. Þórður var þá leikmaður Genk en var við það að ganga í raðir Las Palmas.

„Það sem færri vita að viku áður en ég skrifaði undir hjá Las Palmas hitti ég Gérard Houllier í Brussel,“ sagði Þórður. 

„Hann sagðist vera búinn að fylgjast með mér, koma nokkrum sinnum á völlinn og það var allt klárt. Þá var EM í Belgíu og Hollandi að fara að byrja. Hann sagði að af því hann væri að þjálfa Liverpool verð ég að geta sagt að ég horfði á EM og keypti leikmann af EM. En ef ég finn hann ekki ert þú leikmaðurinn sem ég ætla að taka,“ sagði Þórður.

Ekkert varð þó af félagaskiptunum og Þórður endaði hjá Las Palmas.

„Pressan var það mikil að hvorki Genk né ég í einfeldni minni vorum tilbúin að bíða. Kanaríeyjar og La Liga hljómaði spennandi þótt Liverpool hafi verið mitt lið. Kannski trúði maður ekki á að það gæti orðið,“ sagði Þórður.

Hlusta má á Draumaliðið hér fyrir neðan. Umræðan um Liverpool hefst á 49:20.

Þórður átti reyndar eftir að spila í ensku úrvalsdeildinni, tímabilið 2000-01, þegar Las Palmas lánaði hann til Derby County. Þórður lék tíu leiki með Derby í ensku úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark. Hann lék seinna með Preston og Stoke City í ensku B-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×