Fótbolti

Ari segir fjölskylduna hafa sloppið vel eftir að hafa öll smitast

Sindri Sverrisson skrifar
Ari Freyr Skúlason með bros á vör á landsliðsæfingu. Hann er byrjaður að æfa á nýjan leik eftir að hafa verið frá keppni vegna kórónuveirusmits.
Ari Freyr Skúlason með bros á vör á landsliðsæfingu. Hann er byrjaður að æfa á nýjan leik eftir að hafa verið frá keppni vegna kórónuveirusmits. vísir/vilhelm

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í fótbolta, segist klár í slaginn í næsta leik með liði sínu Oostende eftir að hann og öll fjölskylda hans smitaðist af kórónuveirunni.

Þetta segir Ari í viðtali við mbl.is en hann hefur misst af síðustu fimm leikjum Oostende í Belgíu vegna veikindanna. Hann náði reyndar einni æfingu fyrir síðasta leik, gegn Eupen, en vonast til að geta spilað næsta leik sem er við Mechelen um helgina.

Áður en að Ari veiktist hafði hann spilað sjö deildarleiki með Oostende í janúar, þar af sex í byrjunarliði. Liðið hefur átt frábært tímabil og er í 4. sæti eftir að hafa rétt sloppið við fall í fyrra.

Ari segir við mbl.is að hann telji sig hafa sloppið vel hvað veikindi af völdum veirunnar snerti:

„Ég missti bara bragð- og lyktarskyn og ég fann fyrir smáþreytu fyrstu vikuna en ekkert alvarlegt þannig. Við fengum þetta öll fjölskyldan og miðað við hvernig ástandið er í heiminum í dag tel ég okkur öll hafa sloppið mjög vel,“ segir Ari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×