Erlent

Eldri Frakkar fá bóluefni AstraZeneca

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frakkar eru hluti af samstarfi Evrópusambandsins um bóluefni.
Frakkar eru hluti af samstarfi Evrópusambandsins um bóluefni. Vísir/vilhelm

Frakklandsstjórn snerist í dag hugur og ákvað að eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma fái nú bóluefni AstraZeneca við kórónuveirunni.

Frakkar heimiluðu notkun bóluefnisins fyrir fólk undir 65 ára aldri í janúar og sögðu skort á gögnum um virkni þess fyrir eldra fólk. Fleiri Evrópusambandsríki tóku sömu afstöðu, meðal annars Þýskaland.

Lýðheilsustofnun Englands birti í gær bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar sem sýndu að einn skammtur af AstraZeneca-bóluefninu minnki líkur á að fólk yfir áttræðu þurfi á innlögn á sjúkrahús að halda um áttatíu prósent.

Upplýsingafulltrúi frönsku ríkisstjórnarinnar sagði þetta mikilvægar fréttir, enda sé staðan enn afar slæm þar í landi og frekari takmarkanir jafnvel yfirvofandi.

„Þetta er stórt skref. Olivier Veran [heilbrigðisráðherra] sagði frá því í gær að í mars gætum við verið búin að bólusetja níu milljónir landsmanna,“ sagði Gabriel Attal.

Frakkar eru hluti af samstarfi Evrópusambandsins um bóluefni en sambandið hefur sætt gagnrýni vegna hægagangs. Vandræði við framleiðslu og dreifingu bóluefna Pfizer og Moderna hafa meðal annars valdið töfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×