Viðskipti innlent

Ís­lenskum aðal­verk­tökum út­hýst á Kirkju­sandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Uppbyggingarsvæðið sést hér fyrir miðri mynd en á þeim er myndin var tekin var vinna á reitnum nýhafin.
Uppbyggingarsvæðið sést hér fyrir miðri mynd en á þeim er myndin var tekin var vinna á reitnum nýhafin. Vísir/Vilhelm

Verktakafyrirtækið Íslenskir Aðalverktakar mun ekki ljúka uppbyggingu svæðisins við Kirkjusand þar sem tvö stór fjölbýlishús og 7000 fermetra skrifstofubygging er að rísa.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag og er ástæðan sögð óánægja eiganda verksins, fjárfestingafélagsins 105 Miðborgar um framgang þess og frágang.

Félagið hefur því rift samningnum við ÍAV og ber fyrir sig, samkvæmt heimildum blaðsins, miklar tafir á framkvæmdum og göllum á húsbyggingum sem ÍAV hafði neitað að gera við nema gegn frekari greiðslu.

Árið 2018 var verkefnið metið á rúma tíu milljarða og er stefnt að frekari uppbyggingu á reitnum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa forsvarsmenn verkefnisins verið mjög ósáttir við margt er varðar frágang ÍAV í húsbyggingunum á reitnum.

Nú sé stefnt á að ljúka betrumbótum á þeim húsum sem þegar eru risin auk þess sem gengið verði á tryggingu ÍAV vegna þess sem hljóðar upp á hálfan milljarð króna.

Við lok þessa árs virkjast samningur 105 Miðborgar við heilbrigðisyfirvöld um útleigu á 1500 fermetra rými í skrifstofubyggingunni sem enn er ókláruð.

Ekki liggur fyrir hvaða verktakar munu klára verkið en að því er segir í frétt Morgunblaðsins standa vonir til þess að húsið verði tilbúið áður en umræddur leigusamningur virkjast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×