Samningurinn er við Adienne Srl, ítalskt dótturfyrirtæki svissneska lyfjafyrirtækisins. Rússneski fjárfestingarsjóðurinn fjármagnar bæði þróun bóluefnisins og markaðssetningu þess erlendis. Framleiðslan á Ítalíu á að hefjast í júlí og er stefnt að því að framleiða allt að tíu milljónir skammta á þessu ári, að sögn AP-fréttastofunnar.
Rússneska bóluefninu hefur ekki verið tekið fagnandi í Evrópu fram að þessu. Christa Wirthumer-Hoche, stjórnarformaður Lyfjastofnunar Evrópu, sagði um helgina að hún réði Evrópusambandslöndum að veita Spútnik V-bóluefninu ekki neyðarheimild fyrr en stofnunin hefur náð að staðfesta öryggi þess og virkni.
Framleiðendur bóluefnisins hafa krafist opinberrar afsökunarbeiðni vegna ummæla Wirthumer-Hoche.
Spútnik V hefur fengið grænt ljós í 46 löndum, þar á meðal Indlandi, Suður-Kóreu, Brasilíu, Kína, Tyrklandi og Íran. Evrópusambandsríkin Ungverjaland, Slóvakía og Tékkland hafa þegar veitt bóluefninu leyfi eða hafa umsókn þess efnis til meðferðar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Bólusetningar gegn kórónuveirunni hafa gengið hægt fyrir sig í Evrópu. Ítölsk stjórnvöld stöðvuðu útflutning á bóluefni AstraZeneca sem var framleitt þar til Ástralíu í síðustu viku. Það var í fyrsta skipti sem Evrópuríki beitti útflutningshömlum á bóluefni sem ESB kom á vegna deilna þess við AstraZeneca um afhendingu bóluefnis.