Fótbolti

Fá skýrslur um líkamlegt ástand leikmanna frá félögum þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa rætt mikið saman um hvernig sé best að stýra álaginu og auðvitað leita til Lars líka.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa rætt mikið saman um hvernig sé best að stýra álaginu og auðvitað leita til Lars líka. vísir/vilhelm

Ísland mun spila við Þýskland, Armeníu og Liechtenstein frá 25. til 31. mars næstkomandi og við það bætast ferðalög til þessara staða. Þetta mun reyna mikið á leikmenn íslenska liðsins og líka á breiddina því landsliðsþjálfararnir þurfa að dreifa álaginu.

Það verður mikið álag á íslenska landsliðinu í þeim þremur leikjum sem bíða liðsins á næstunni en í fyrsta sinn þurfa íslensku strákarnir að spila þrjá leiki í undankeppni á einni viku.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ræddi við blaðamann á fjarfundi í dag og fór þá aðeins yfir hvernig hann ætlar að tækla þessa mjög svo óvenjulegu stöðu í þessum landsliðsglugga.

Arnar var þar spurður um álagið þar sem íslenska liðið leikur þrjá leiki á sjö dögum. Arnar segir að þjálfarateymið vinni náið með styrktarþjálfara landsliðsins og að þeir fái upplýsingar um líkamlegt ásigkomulag leikmanna frá félögum leikmannanna.

„Við höfum talað mikið um þetta,“ sagði Arnar Þór Viðarsson. Arnar segir að þjálfarateymið muni ræða það hvaða leikmenn í hópnum geti spilað alla þrjá leikina en eins hvaða leikmenn ráða við minna.

Arnar segir að þetta sé risastór áskorun og í fyrsta sinn sem við förum í svona lotu þar sem spilað er svona þétt. Arnar segir að enginn leikur sé mikilvægari en annar. Það sé bara næsti leikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×