Innlent

Von á niðurstöðu um eittleytið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Vísir/Egill

Lyfjastofnun Evrópu fundar nú um bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni og mögulegt orsakasamhengi við blóðtappa. Niðurstöðu er að vænta um klukkan eitt.

Fjöldi Evrópuríkja, Ísland þar á meðal, hefur gert hlé á notkun bóluefnisins eftir að blóðtappar fundust í fólki sem hafði fengið sprautu. Nú stendur yfir fundur hjá lyfjagátarnefnd Lyfjastofnunar Evrópu um málið.

„Það er gert ráð fyrir að það verði komin niðurstaða frá þeim um eittleytið. Þá ætti að koma fréttatilkynning frá evrópsku lyfjastofnuninni. Þetta er búið að vera að vinnast í tæpa viku og þetta hefur verið unnið í samstarfi við AstraZeneca, sérfræðinga í blóðsjúkdómum og önnur heilbrigðisyfirvöld,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands. Breska lyfjastofnunin sem og sú bandaríska séu einnig á fundinum.

„Sérstaklega er horft til þess hvort bóluefnið kunni að hafa stuðlað að þessum tilkynntu tilvikum eða hvort það sé líklegt að aðrar ástæður liggi að baki. Það er stóra málið. Þetta eru sjaldgæf en alvarleg tilfelli,“ segir Rúna.

Yfirvöld um alla Evrópu hafi sent inn upplýsingar og farið hafi verið yfir gögn úr ýmsum áttum. Þegar niðurstaðan liggi fyrir sé það heilbrigðisyfirvalda í hverju landi fyrir sig að ákveða næstu skref. Hér heima þurfi sóttvarnalæknir að taka ákvörðun um áframhald bólusetninga.

„Eins og ég segi, þetta eru sjaldgæf tilfelli og það er verið að reyna að meta orsakasamhengið. Þetta kemur í ljós um eittleytið hvernig þetta verður og síðan tekur sóttvarnalæknir hér ákvörðun um áframhaldandi bólusetningar með þessu bóluefni. Heilt yfir, með öll bóluefnin, er ávinningurinn meiri en áhættan.“

Uppfært klukkan 15:43

Lyfjastofnun Evrópu hefur endurtekið frestað tilkynningu sinni í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×