Fótbolti

Missir af mikilvægum landsleikjum vegna afar klaufalegra mistaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Maxim Choupo-Moting spilaði með Paris Saint Germain á síðasta tímabili og er með Bayern München á þessu tímabili.
Eric Maxim Choupo-Moting spilaði með Paris Saint Germain á síðasta tímabili og er með Bayern München á þessu tímabili. EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS

Kamerún þarf að spila leiki sína í mars án lykilleikmanns en ástæðan er hvorki meiðsli, leikbann eða áhugaleysi hjá leikmanninum sjálfum.

Eric Maxim Choupo-Moting er einn mikilvægasti leikmaður kamerúnska landsliðsins en framherji Bayern verður samt hvergi sjáanlegur í landsleikjum Kamerún nú í mars.

Eric Maxim Choupo-Moting, sem spilar með Evrópumeisturum Bayern München, verður áfram í Þýskalandi með félagi sínu vegna ótrúlega klaufalegra mistaka starfsmanna knattspyrnusambands Kamerún.

Þýska blaðið Bild segir frá því að landsliðsþjálfarinn Toni Conceicao hafi valið kappann í landsliðið en að leikmaðurinn hafði ekki svarað. Þjálfarinn hafi því þurft að taka hann af listanum sínum.

Faðir leikmannsins var ekki sáttur með þessa skýringu og sagði það bull og vitleysi að strákurinn sinn hefði ekki svarað kallinu. Hann fékk það staðfest að Bayern hafi ekki fengið neitt sent frá Kamerún.

Sannleikurinn var líka sá að starfsmaður kamerúnska sambandsins hafði verið eitthvað utan við sig þegar hann sendi skeyti á lið leikmannsins.

Starfsmaðurinn ætlaði að senda tölvupóstinn á Bayern München en sendi hann í staðinn á eigið knattspyrnusamband.

Eric Maxim Choupo-Moting fékk því aldrei boð um að mæta til móts við landsliðið og missir af leikjum á móti Fílabeinsströndinni og Rúanda.

Þetta gæti orðið dýrt spaug fyrir landslið Kamerún því liðið er að berjast um að tryggja sér þátttökurétt í Afríkukeppni landsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×