Fótbolti

Íslensku strákarnir þurfa ekki að glíma við Kroos á fimmtudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið þarf ekki að hafa áhyggjur af Toni Kroos á fimmtudaginn.
Íslenska liðið þarf ekki að hafa áhyggjur af Toni Kroos á fimmtudaginn. getty/David S. Bustamante

Miðjumaðurinn Toni Kroos hefur dregið sig út úr þýska landsliðshópnum vegna meiðsla. Hann verður því ekki með þýska liðinu gegn því íslenska í undankeppni HM 2022 á fimmtudaginn.

Kroos snýr nú aftur til Spánar þar sem hann leikur með Real Madrid. Hann hefur verið í herbúðum spænska stórliðsins síðan 2014 og þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari með því.

Kroos var leikjahæstur í þýska hópnum með 101 landsleiki. Í þeim hefur hann skorað sautján mörk. Miðjumaðurinn lék sinn hundraðasta landsleik gegn Sviss í Þjóðadeildinni síðasta haust.

Kroos varð heimsmeistari með þýska landsliðinu í Brasilíu 2014. Hann var valinn í lið mótsins. Hann lék einnig með Þjóðverjum á HM 2010 og 2018 og EM 2012 og 2016.

Þýskaland mætir Íslandi í fyrsta leik sínum í undankeppni HM í Duisburg á fimmtudaginn. Þýskaland mætir svo Rúmeníu í Búkarest á sunnudaginn og Norður-Makedóníu í Duisburg á miðvikudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×