Fótbolti

Lars sá að stærstum hluta um æfingu landsliðsins í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck með þeim Arnari Þór Viðarssyni og Eiði Smára Guðjohnsen á æfingu íslenska landsliðsins í Þýskalandi. Það fór vel á með þeim.
Lars Lagerbäck með þeim Arnari Þór Viðarssyni og Eiði Smára Guðjohnsen á æfingu íslenska landsliðsins í Þýskalandi. Það fór vel á með þeim. Hafliði Breiðfjörð

Lars Lagerbäck er kominn til móts við íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í Düsseldorf í Þýskalandi og það er ljóst að Svíinn er ekki til sýnis í þessu verkefni.

Arnar Þór Viðarsson tók við íslenska landsliðinu rétt fyrir jól en þetta er hans fyrsta verkefni. Arnar er því að stýra sínum fyrstu æfingum þessa dagana.

Hann nýtur góðs af því að aðstoðarmennirnir þekkja hópinn vel. Eiður Smári Guðjohnsen spilað í mörg ár með þessum strákum í landsliðinu og svo er það auðvitað Lars Lagerbäck sem gerbreytti íslenska karlalandsliðinu þegar hann tók við þjálfun þess árið 2012. Þegar Lars skildu við síðast þá var íslenska liðið nýbúið að spila leik í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

Arnar er óhræddur við að nýta sér krafta Svíans reynslumikla og það frá fyrsta degi. Arnar Þór Viðarsson sagði nefnilega frá því í viðtali við RÚV í gær að Lars Lagerbäck hefði séð um æfingu liðsins í gær.

„Það er frábært að hafa Lars með okkur. Við höfum verið saman hérna núna í einhverja fimm daga og erum búnir að undirbúa allt saman í þjálfarateyminu,“ sagði Arnar Þór Viðarsson í viðtalinu og bætti við:

„Til dæmis var æfingin í dag að stærstum hluta æfing sem Lars tók. Við erum að skipta þessu niður á milli okkar og ekki bara fyrir mig, starfsfólkið, leikmennina eða fjölmiðlafólk þá sér maður bara virðinguna og hversu mikill vinskapur hefur skapast í gegnum árin á milli allra þessara manna. Það er frábært fyrir mig að sjá það líka,“ sagði Arnar Þór.

Leikur Íslands og Þýskalands fer fram á fimmtudagskvöldið og er þetta fyrsti leikur þjóðanna í undankeppni HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×