Fótbolti

Íslensku strákarnir hafa ekki tapað fyrsta leik í undankeppni í áratug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason skorar fyrsta mark Íslands í síðustu undankeppni þegar kom íslenska liðinu í 1-0 á móti Andorra.
Birkir Bjarnason skorar fyrsta mark Íslands í síðustu undankeppni þegar kom íslenska liðinu í 1-0 á móti Andorra. Getty/Quality Sport Images

Það er alltaf gott að byrja vel og það hefur átt við hjá íslenska fótboltalandsliðinu í öllum undankeppnum frá og með undankeppni HM 2014.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur byrjað allar undankeppnir vel síðan að Lars Lagerbäck kom til starfa árið 2011. Nú reynir á það á móti stórliði Þýskalands í kvöld þar sem liðið spilar sinn fyrsta leik í undankeppni HM 2022.

Íslensku strákarnir hafa unnið þrjá af síðustu fjórum opnunarleikjum sínum í undankeppni HM eða EM og í þeim fjórða gerði liðið jafntefli á útivelli. Liðið er því taplaust í fyrsta leik í undankeppni í áratug.

Íslensku strákarnir hita hér upp í Duisburg í kvöld.Getty/Matthias Hangst

Lars Lagerbäck var þjálfari íslenska landsliðsins frá 2011 til 2016 og fór með liðinu í bæði undankeppni HM 2014 og undankeppni EM 2016. Í báðum keppnum byrjaði íslenska landsliðið á sigri, fyrst 2-0 sigri á Noregi í undankeppni HM 2014 og svo 3-0 sigri á Tyrklandi í undankeppni EM 2016. Í seinni leiknum var Heimir Hallgrímsson orðinn aðalþjálfari með Lars.

Íslenska liðið vann líka fyrsta leik sinn í síðustu undankeppni þegar liðið var undir stjórn Erik Hamrén. Íslensku strákarnir unnu þar 2-0 útisigur á Andorra með mörkum þeirra Birkis Bjarnasonar og Viðars Arnar Kjartanssonar.

Íslenska landsliðið hefur reyndar komist yfir í fyrsta leik í öllum undankeppnum frá 2010 því íslenska liðið komst í 1-0 í 1-2 tapi á móti Noregi í undankeppni EM 2012. Íslenska liðið skoraði líka á undan í 1-1 jafntefli úti í Úkraínu í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2018.

Fyrsti leikur í síðustu undankeppnum HM og EM undanfarin ár:

  • EM 2020:
  • 2-0 sigur á Andorra á útivelli
  • HM 2018:
  • 1-1 jafntefli við Úkraínu á útivelli
  • EM 2016:
  • 3-0 sigur á Tyrklandi á heimavelli
  • HM 2014:
  • 2-0 sigur á Noregi á heimavelli
  • EM 2012:
  • 2-1 tap fyrir Noregi á útivelli
  • HM 2010:
  • 2-2 jafntefli á móti Noregi á útivelli
  • EM 2008:
  • 3-0 sigur á Norður Írlandi á útivelli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×