Fótbolti

„Hann sá ekki út um annað augað“

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson fékk högg í höfuðið frá Kai Havertz þegar þeir börðust um boltann í Duisburg í kvöld.
Rúnar Már Sigurjónsson fékk högg í höfuðið frá Kai Havertz þegar þeir börðust um boltann í Duisburg í kvöld. Getty

Rúnar Már Sigurjónsson fór meiddur af velli í Þýskalandi í kvöld og Jóhann Berg Guðmundsson tók ekki þátt í leiknum. Arnar Þór Viðarsson segir stöðu Rúnars óljósa en að útlitið sé gott varðandi Jóhann.

Ísland steinlá í Duisburg í kvöld, 3-0, í fyrsta leiknum í undankeppni HM. Á sunnudaginn er næsti leikur, við Armeníu á útivelli, og törninni lýkur svo með leik við Liechtenstein ytra næsta miðvikudag.

„Rúnar fékk högg á höfuðið,“ sagði Arnar um meiðsli Rúnars, sem fór af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið högg frá Kai Havertz.

„Hann sá ekki út um annað augað. Ég hef ekki meiri upplýsingar um það. Við vonum að sjálfsögðu að það sé eitthvað tímabundið bara í kvöld og verði betra á morgun, en ég get ekki tjáð mig annars um það,“ sagði Arnar á blaðamannafundi eftir leik.

Aðspurður um stöðuna á Jóhanni, sem sat á varamannabekknum í kvöld og hefur ekki æft að fullu í vikunni, sagði Arnar: „Jói tók góða æfingu með Birki [Má Sævarssyni, sem tók út leikbann] í morgun og þetta lítur mjög vel út með Jóa fyrir Armeníuleikinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×