Snæfoksstaðir í Grímsnesi er stórt og mikið skógræktarsvæði í eigu Skógræktarfélags Árnesinga. Mikið hefur verið grisjað í skóginum undanfarin ár, sem þýðir að mikið af trjábolum verða til. Þeir eru nú settir í nýja vél, sem félagið var að kaupa frá Finnlandi en vélin er sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Hún kallast „Klifur“ því hún er notuð til að kljúfa trjáboli.
„Vélin er fullkomin og krefst lítils mannafla og við erum svo heppin að eiga inniaðstöðu á Snæfoksstöðum þannig að þarf nánast aldrei að fara út með þessa vél. Við tökum timbrið úr skóginum í vélina, svo í grindur og þurrkum inni,“ segir Kjartan Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Árnesinga.

En hvað er gert við við afurðina, sem kemur úr vélinni?
„Afurðin er seld en það er mikið af pizzastöðum, sem kaupa og síðan fer þetta sem arinviður hjá sumarbústaðaeigendum og íbúðarhúsum. Pizzastaðirnir sumir hverjir eru með eldbakaðar pizzur og þá nota þeir mikinn eldivið,“ segir Kjartan.

Kjartan segir að nýja vélin sé mjög afkastamikil og eigi eftir að margborga sig fyrir félagið.
„Á næstu tíu til fimmtán árum verður gríðarlega mikil viðarframleiðsla á Íslandi og við þurfum að koma þeirri framleiðslu auðvitað í not, gera verðmæti úr þessari miklu viðarframleiðslu, sem er að koma í gagnið hérna“, segir Kjartan enn fremur.
