Fótbolti

Söguleg úrslit smáþjóða í leikjum gærkvöldsins

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Írar trúðu vart eigin augum í gær.
Írar trúðu vart eigin augum í gær. vísir/Getty

Smáþjóðir náðu í óvenju góð úrslit í undankeppni HM 2022 í gær.

Í Dublin tóku Írar á móti Lúxemborg og var ekki búist við öðru en þægilegum sigri Íra enda hafði Lúxemborg ekki unnið landsleik á útivelli frá árinu 2008 þegar kom að leiknum í gærkvöldi.

Leikurinn var markalaus allt þar til á 86.mínútu þegar Gerson Rodrigues tryggði Lúxemborg sjaldséðan sigur.

Á sama tíma voru Maltverjar í heimsókn hjá Slóvökum og hálfleikstölur þar komu öllum í opna skjöldu þar sem Malta leiddi með tveimur mörkum gegn engu.

Slóvakar náðu að svara fyrir sig í síðari hálfleik og lauk leiknum með 2-2 jafntefli. 

Malta eru ekki hátt skrifaðir í knattspyrnunni og höfðu ekki skorað mark á útivelli í þrettán leikjum í röð þegar kom að leik gærkvöldsins.

Með jafnteflinu eru þeir búnir að jafna stigafjölda sinn í síðustu undankeppni fyrir HM þar sem þeir náðu aðeins einu stigi úr tíu leikjum.

Hafa ber í huga að bæði Malta og Lúxemborg eru fjölmennari þjóðir en Ísland en eru þó talsvert styttra komin í knattspyrnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×