Fótbolti

Fær stuðnings­yfir­lýsingu eftir neyðar­legt tap fyrir Lúxem­borg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tapið fyrir Lúxemborg er talið eitt það versta í sögu írska landsliðsins.
Tapið fyrir Lúxemborg er talið eitt það versta í sögu írska landsliðsins. getty/Brian Lawless

Formaður írska knattspyrnusambandsins segist styðja hundrað prósent við bakið á Stephen Kenny, þjálfari írska karlalandsliðsins, þrátt fyrir að Írland hafi tapað fyrir Lúxemborg.

Írar töpuðu afar óvænt fyrir Lúxemborgurum, 0-1, á heimavelli í undankeppni HM 2022 á laugardaginn. Írar töpuðu sömuleiðis fyrir Serbum, 2-3, í síðustu viku og eru án stiga eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni HM.

Raunar hafa Írar ekki enn unnið í tíu leikjum undir stjórn Kennys síðan hann tók við liðinu fyrir tæpu ári og aðeins skorað þrjú mörk. Þrátt fyrir það virðist hann njóta trausts hæstráðenda hjá írska knattspyrnusambandinu.

„Hvað mig varðar nýtur Kenny fyllsta trausts og ég vona að hann verði hérna í þessari undankeppni og þeim næstu en við sjáum hvað gerist,“ sagði Roy Barrett, forseti írska knattspyrnusambandsins.

Seamus Coleman, fyrirliði írska liðsins, var miður sín eftir tapið fyrir Lúxemborg og talaði um að kvöldið hefði verið hræðilegt og vandræðalegt.

Írland mætir Katar í vináttulandsleik í Ungverjalandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×